Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Veiðar á kolmunna í færeysku lögsögunni. Kolmunni er sú tegund sem íslensk skip veiða mest af utan lögsögu. Mynd / Viðar Sigurðsson
Veiðar á kolmunna í færeysku lögsögunni. Kolmunni er sú tegund sem íslensk skip veiða mest af utan lögsögu. Mynd / Viðar Sigurðsson
Fréttaskýring 25. júlí 2018

Um 10% aflaverðmæta utan lögsögu

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Heildaraflaverðmæti íslenskra skipa á síðasta ári var um 110 milljarðar króna en alls veiddust 1,2 milljónir tonna, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Rúm 313 þúsund tonn voru veidd utan lögsögu Íslands að verðmæti um 11,2 milljarðar króna, eða um 10% af heildinni. Saga úthafsveiða Íslendinga er á köflum afar viðburðarík.

Þótt Íslandsmið séu gjöful hafa íslenskir útvegsmenn gjarnan leitað á önnur mið. Veiðar utan lögsögu hafa verið með ýmsu móti. Í seinni tíð höfum við veitt utan lögsögu hluta af kvóta okkar í deilistofnum, svo sem í norsk-íslenskri síld. Þær veiðar fara bæði fram í lögsögu annarra ríkja og á alþjóðlegum svæðum. Einnig höfum við veiðiheimildir í lögsögu annarra þjóða sem fengist hafa með samningum, svo sem veiðar á þorski í rússneskri og norskri lögsögu í Barentshafi.

Þorskur og uppsjávarfiskur

Nánar tiltekið skiptust veiðar okkar utan lögsögu á síðasta ári þannig að tæp 9 þúsund tonn af botnfiski voru veidd í norsku lögsögunni í Barentshafi samkvæmt tölum Hagstofunnar. Aflaverðmætið þar var um 2,2 milljarðar króna. Í rússnesku lögsögunni í Barentshafi voru veidd rúm 4 þúsund tonn að verðmæti um 975 milljónir. Þetta er nær eingöngu þorskur en lítilsháttar af ýsu.

Á öðrum svæðum en í Barentshafi voru veidd samtals um 300 þúsund tonn að verðmæti um 8 milljarðar í fyrra. Þar er um uppsjávarfisk að ræða, kolmunna og norsk-íslenska síld en einnig makríl.

Á síðasta ári veiddu Íslendingar um 204 þúsund tonn af kolmunnakvóta sínum utan lögsögu, eða rúm 90% af heildarafla okkar í kolmunna. Rúm 195 þúsund tonn veiddust í færeyskri lögsögu og rúm 8 þúsund tonn á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi.

Íslensk skip veiddu rúm 34 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld utan lögsögunnar í fyrra, eða um 38% af heild í þeirri tegund. Um 30 þúsund tonn veiddust í færeyskri lögsögu en um 5 þúsund tonn í Síldarsmugunni svokölluðu, sem er alþjóðlegt hafsvæði milli Íslands og Noregs.

Loks má nefna að íslensk skip veiddu 62 þúsund tonn af makríl utan lögsögu, eða 37% af heild. Þar af veiddust um 59 þúsund tonn í Síldarsmugunni en eitthvað í færeysku og grænlensku lögsögunni.

Fjölbreyttar veiðar

Saga úthafsveiða okkar hófst eftir að við eignuðumst stærri skip og togara á fyrri hluta síðustu aldar. Íslensk skip stunduðu til að mynda þorskveiðar á Barentshafi með hléum strax á árunum 1930 til 1960 og aftur eftir 1990 sem nánar verður vikið að.

Íslendingar héldu einnig til veiða við Grænland hér á árum áður og fundu þar fengsæl mið. Saltfisktúrar síðutogara á sjötta áratugnum við Vestur-Grænland eru til dæmis í minnum hafðir. Þeir voru langir, upp í þrjá mánuði, og aðbúnaður um borð slæmur. Allt að 40 manns voru í áhöfn, sumir þurftu að deila kojum, og vatn til þrifa var af skornum skammti.

Íslensk skip veiddu um tíma karfa á Nýfundnalandsmiðum sem var mikið hættuspil að vetri til. Þar varð eitt hörmulegasta sjóslys í sögu Íslands í febrúar 1959. Þá fórst síðutogarinn Júlí frá Hafnarfirði og með honum 30 manns í aftakaveðri og mikilli ísingu.

Íslendingar veiddu einnig síld við Jan Mayen og langt norður í höf þegar göngur Norðurlandssíldarinnar tóku að breytast á sjöunda áratug síðustu aldar. Ennfremur héldu íslensk síldarskip til veiða í Norðursjó í lok sjöunda áratugarins eftir hrun síldarinnar. Þegar Norðurlandssíldin, sem nú er kölluð norsk-íslensk síld, hjarnaði við eftir 1990 veiddu Íslendingar hana utan lögsögu fyrst í stað en síðan hefur hún verið veidd innan lögsögu eða utan eftir hentugleika.

Í upphafi 10. áratugarins hófu Íslendingar veiðar á rækju á Flæmingjagrunni, sem er austan við lögsögu Kanda, en þær veiðar eru ekki stundaðar lengur. Við eigum þar sögulegan rétt ef rækjan réttir úr kútnum.
Á svipuðum tíma hófust veiðar okkar á úthafskarfa utan lögsögu á Reykjaneshrygg suðvestur af landinu.

Þær veiðar hafa dregist verulega saman og taka íslensku skipin sinn kvóta nú eingöngu rétt innan við landhelgislínuna.

Af þessari upptalningu, sem er alls ekki tæmandi, má sjá að íslensk skip hafa lengi stundað fjölbreyttar og umtalsverðar veiðar utan lögsögunnar.

Hörð milliríkjadeila

Veiðar íslenskra skipa í Smugunni í Barentshafi á árunum 1993 til 1999 er einn dramatískasti þáttur í sögu úthafsveiða Íslendinga. Vert er að rifja þá ævintýrlegu sögu upp lítillega og er hér stuðst við MA-ritgerð Arnórs Snæbjörnssonar í sagnfræði um veiðar Íslendinga í Barentshafi 1993-1999.

Smugan er alþjóðlegt hafsvæði sem markast í austri af rússnesku efnahagslögsögunni, í suðri af lögsögu Noregs og í vestri af fiskverndarsvæðinu við Svalbarða. Færeyingar kölluðu þetta svæði „Loynikrókurinn“ og segja má að þeir hafi vísað Íslendingum veginn þangað.

Sumarið 1993 héldu íslensk skip í Smuguna til að freista gæfunnar en erfiðleikar voru þá í útgerð heima fyrir. Þetta ár stunduð 42 skip, sem Íslendingar gerðu út, veiðar og afli þeirra nam 9.300 tonnum.

Norðmenn mótmæltu veiðum okkar og sögðu að þorskstofninum í Barentshafi gæti verið ógnað. Rússar lögðust einnig gegn þessum veiðum.

Árið 1994 gengu veiðar okkar í Barentshafi afar vel. Þá stunduðu 63 skip veiðarnar og fengu þau alls 34.200 tonn. Þessi afli skilaði um 5 milljörðum í þjóðarbúið sem nam 5,5% af útflutningsverðmætum sjávarafurða. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu voru fleiri íslenskir togarar að veiðum í Smugunni þegar vika var af september 1994 en á Íslandsmiðum.

Smugudeilan varð að harðri og lagalega flókinni milliríkjadeilu milli Noregs og Íslands, einkum eftir að nokkur íslensk skip héldu til veiða á svonefndu fiskverndarsvæði Norðmanna við Svalbarða. Til átaka kom á miðunum á Svalbarðasvæðinu þegar íslenskir útvegsmenn létu reyna á þolrif norskra stjórnvalda.

Þessari atburðarrás lyktaði með því að skip voru færð til hafnar í Noregi og sektuð haustið 1994.

Þessi deila hélt áfram næstu árin. Árið 1995 var afli íslensku skipanna rúm 32 þúsund tonn en minnkaði eftir það og varð aðeins 5.900 tonn  árið 1997 og 1.400 tonn árið 1998.

Smugusamningurinn

Eftir nokkrar samningalotur náðust samningar í Smugudeilunni milli Íslands, Noregs og Rússlands árið 1999. Í stuttu máli felur samningurinn í sér heimild Íslendinga til að veiða þorsk í lögsögu Rússlands og Noregs í Barentshafi. Er um að ræða ákveðið hlutfall af heildaraflamarki í þorski í Barentshafi.

Kvóti okkar í norsku lögsögunni er jafnan hærri en í þeirri rússnesku. Það stafar af því að við gerðum gagnkvæman fiskveiðisamning við Noreg sem heimilar norskum skipum að veiða botnfisk á línu í íslenskri lögsögu. Við látum Norðmenn einnig hafa töluvert magn af loðnu, sem er breytilegt milli ára og dregst frá kvóta okkar. Íslensk lögsaga var ekki opnuð fyrir rússnesk skip en í stað þess var samið við Rússa um að við ættum rétt á að leigja tiltekið magn af þorski til viðbótar á markaðsverði. Sum árin höfum við nýtt þennan rétt okkar en önnur ekki.

Norðmenn veiddu í lögsögu Íslands 568 tonn af botnfiski á síðasta ári, aðallega keilu, löngu og þorsk, samkvæmt smugusamningnum. Auk þess veiddu þeir rúm 60 þúsund tonn af loðnu á Íslandsmiðum. Þar af eru rúm 30 þúsund tonn sem Ísland lét þá hafa af sínum kvóta gegn veiðiheimildunum í Barentshafi.

Veiðar utan lögsögu eru þýðingarmikill þáttur í sjávarútvegi Íslendinga. Þó ber að hafa í huga að við látum Norðmenn hafa aflaheimildir á móti hluta af kvóta okkar í Barentshafi. Þá gætum við ef á þyrfti að halda veitt meira af norsk-íslenskri síld í lögsögu okkar eða á alþjóðlegu svæði. Hings vegar gæti verið örðugt að veiða allan kolmunnakvótann ef færeysk lögsaga stæði ekki íslenskum skipum opin.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...