Fuglaflensa í Tennessí-ríki í Bandaríkjunum
Landbúnaðaráðuneytið í Bandaríkjunum hefur staðfesta alvarlegt tilfelli fuglaflensu í Tennessí-ríki. Um er að ræða fyrsta staðfesta tilfellið af veiru sem kallast H7 (HPAI) í Bandaríkjunum á þessu ári og er veiran sögð bráðsmitandi.
Þegar er búið að slátra og urða öllum fuglum á einu búi með ríflega 73 þúsund kjúklingum. Þrjátíu önnur bú hafa verið sett í einangrun og sýni tekin til að ganga úr skugga um hvort fuglar í þeim kunna að vera sýktir af H7 (HPAI) veirunni.
Um 550 alifuglabú eru í Tennessí-ríki og um sex milljón fuglum til manneldis er slátrað í ríkinu á viku.
50 milljón fuglum slátrað á tveimur árum
Í fyrra og hittifyrra var nálega 50 milljón alifuglum slátrað í Bandaríkjunum vegna H7 (HPAI) veirunnar. Stærstur hluti þeirra fugla voru varphænur og vegna þess náði verð á eggjum í Bandríkjunum hæstu hæðum.
Sýking af völdum H7 (HPAI) veirunnar er sögð svo slæm að hún getur valdið dauða allra fugla í búum þar sem hún greinist á innan við tveimur sólarhringum.
Ekki er vitað til þess að menn hafi smitast vegna faraldursins í Tennessí núna en nokkur dæmi eru um dauðsföll í Kína undanfarna mánuði vegna víruss sem kallast H7N9 og berst úr fuglum í menn.
Víða fuglaflensa en í Bandaríkjunum
Nokkur dæmi eru um H5N8 veirusýkingar í Frakklandi frá því í haust og ekki er langt síðan tilkynnt var um tvö tilfelli á Bretlandseyjum. Afbrigði af fuglaflensuveiru sem kallast H5N6 hefur verið að breiðast hratt út í Suður-Kóreu og valdið versta faraldri fuglaflensu í landinu til þessa.