Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttir 20. ágúst 2018
Fuglar valda skemmdum á heyrúllum
Höfundur: Bjarni Rúnars
Það er fátt sem ergir bændur meira en að verða fyrir skemmdum á heyfeng. Tíðin hefur verið mörgum óhagstæð, sér í lagi á Suður- og Vesturlandi. Vonbrigðin verða því ennþá meiri ef fuglar náttúrunnar taka upp á því að skemma rúllurnar með því að gera göt á plastið og hleypa þannig súrefni inn í rúlluna með tilheyrandi skemmdum. Því þarf að endurpakka rúllunni með tilheyrandi aukakostnaði.
Virðast sjá æti undir plastinu
Fuglar eins og mávar, hettumávar, kríur og ýmsir smáfuglar jafnvel virðast halda að æti sé að finna í rúllunum. Einhver munur virðist vera á því hvort notuð eru bönd, net eða filma (nærfilma) á rúllurnar, því fuglar virðast sækja frekar í rúllur þar sem band eða net er notað. Hugsanlegt er að fuglinn telji sig sjá orm eða annað ætilegt undir plastinu, en filman virðist ekki vera eins girnileg. Reynsla bænda er þó misjöfn eftir svæðum.
Þeir bændur sem hafa gefið ráð í þessum efnum telja margir að litur plastsins skipti máli. Sumir telja að fuglar sæki minna í svart plast, aðrir að grænt plast haldi þeim frá og enn aðrir að svart og hvítt til skiptis sé galdralausnin. Það er vandasamt að fullyrða nokkuð um hvað sé árangursríkast í þeim efnum, það eru skiptar skoðanir meðal bænda um þetta eins og margt annað.
Elín Guðjónsdóttir á Þverlæk í Holtum hefur gert tilraunir með að mála augu á rúllurnar með góðum árangri. Mávurinn fælist rauða litinn og stóru augun. Mynd / EG
Ýmsar aðrar aðferðir
Til að reyna að líkja eftir hættum í náttúrunni hafa bændur tekið upp á því að mála augu ofan á rúllur og reyna að halda varginum þannig frá. Fuglar virðast fælast rauðan lit og því er hann gjarnan notaður í augastein. Þær tilraunir sem nú þegar hafa verið gerðar hafa skilað talsverðum árangri. Hafa þarf snarar hendur því fuglinn sækir mjög fljótt í rúllurnar eftir að þær lenda á túninu. Þó að bændur reyni að bjarga rúllunum eins fljótt og unnt er heim í stæðu er fuglinn oft fljótari til. Sú aðferð að láta rúllur standa upp á endann hefur borið árangur hjá bændum. Þannig er plastið þykkara sem snýr upp í himininn og fuglinn sér jafnvel ekki eins vel í gegnum plastið. Eins er það betur varið ef fuglar reyna að plokka í það.
Gott að breiða net yfir stæður
Yfirleitt sækja fuglarnir aðeins í rúllur sem standa úti á túnum. Þó eru dæmi um að þeir leiti í stæður og valdi þar skemmdum. Gott ráð til að verjast slíku er að setja net yfir stæðuna og dekk eða annað sem heldur netinu frá beinni snertingu við stæðuna. Þannig á fuglinn erfiðara með að kroppa í rúllurnar með tilheyrandi skemmdum. Eins vilja sumir meina að betra sé að raða rúllum upp á endann til að verja stæðuna betur, þá snúi þykkara plastlag upp í loftið, og eins niður að jörðinni. Hvor aðferðin sé betri skal látið liggja á milli hluta, en albest er að koma rúllum eins fljótt og auðið er heim af túnum og í stæðu. Þannig er dregið verulega úr skemmdum. Ef tilefni þykir til er gott að strengja net yfir eins og áður segir. Hver aðferð hefur skilað árangri, mismiklum á milli bæja. Þegar raðað er í rúllustæðu þarf að huga vel að frárennsli, að vatn geti ekki myndað tjarnir eða polla. Einnig er mikilvægt að planið sé slétt og að engir oddhvassir aðskotahlutir séu í planinu sem valdið geta skemmdum á plastinu. Eins þarf að huga að aðgengi annarra dýra að stæðunni og girða af ef nauðsyn krefst.
Geisladiskar endurspegla sólarljósi sem virðist fæla fugla frá. Ekki er gerður greinarmunur á árangri eftir innihaldi geisladiskanna! Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir í Ásgarði hefur góða reynslu af þessari aðferð. Mynd / IRI
Misheppnað varp og kuldatíð
Fuglarnir virðast vera mun ágengari á sumum svæðum en áður. Þannig greinir Haraldur Benediktsson, bóndi á Vestra-Reyni við Akrafjall, frá því á Facebook-síðu sinni að fuglarnir ráðist á rúllurnar nánast beint af pökkunarborðinu. Hann er með þá kenningu að varp fuglanna hafi misfarist í sumar og að hrjóstrugt og kalt veðurfar haldi ormum í skefjum og minnki þannig fæðuframboð fyrir fuglana. Á þeirra svæði hafi fuglinn ekki sótt mikið í rúllurnar, en nú sé enginn friður og endurpakka hafi þurft stórum hluta heyfengsins.
Mávurinn sækir ekki eingöngu æti við sjávarsíðuna heldur freistast hann í heyrúllur bænda. Mynd / ÁÞ