Fyrsta asíska „morðvespan” finnst í Bandaríkjunum
Fyrsta risavespan af asískum uppruna sem kölluð eru „morðvespa“ (murder hornet) fannst í Snohomish-sýslu norður af Seattle-borg í Bandaríkjunum þann 4. júní síðastliðinn. Um var að ræða dauða karlflugu og líklegt talið að hún hafi komið til landsins fyrir ári síðan.
Vespurnar, sem eru af tegundinni Asian giant hornet (Vespa mandarinia), geta verið um 5 sentímetrar að lengd og eru taldar sérlega hættulegar fyrir býflugur. Ráðast þær á býflugurnar slíta af þeim hausinn og gjöreyða búum þeirra á nokkrum klukkutímum.
Samkvæmt frétt Sky News þann 17. júní þá ráðast vespurnar venjulega ekki á fólk, en stungur þeirra valda miklum sársauka. Endurteknar stungur í menn geta leitt til dauða.
Talið er að morðvespur í Snohomish-sýslu hafi komið til Bandaríkjanna sem laumufarþegar í flutningaskipi og að þær séu ekkert tengdar morðvespunum sem fundust í Kanada 2019 og 2020.
Dr. Osama El-Lissy, yfirmaður hjá sóttkvíaáætlun bandaríska landbúnaðarráðuneytisins, segist ráðþrota yfir þessum vespufundi.
Það sé of snemmt fyrir karlvespur að vera á sveimi á þessum tíma sumars.
Skordýrafræðingurinn Sven Spichiger segir að nú verði settar upp gildrur til að reyna að fanga fleiri morðvespur og eru íbúar í Snohomish- og King-sýslum hvattir til að taka þátt.
Asísku risavespurnar eru skilgreindar sem hættulegar umhverfinu, sem þýðir að Washington-ríki mun grípa til allra tiltækra ráðstafana til að uppræta vespurnar.