Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Fyrsta sala vottaðra kolefniseininga
Fréttir 1. desember 2022

Fyrsta sala vottaðra kolefniseininga

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Í ágúst á þessu ári var gefin út tækniforskrift um kolefnisjöfnun eftir ákall frá aðilum á markaði. Nú er búið að skilgreina hvað þarf til þess að fyrirtæki og stofnanir geti jafnað út sína losun og hvaða skilyrðum þarf að fullnægja til að geta haldið fram kolefnishlutleysi.

Tækniforskriftin er viðauki við ISO staðal um gróðurhúsalofttegundir og er gefin út af Staðlaráði Íslands – sem er hluti af alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO.

Nú þegar hefur farið af stað vinna við að votta loftslagsverkefni, af þar til bærum vottunaraðilum, samkvæmt tækniforskriftinni. Fyrirtækið Yggdrasil Carbon á Egilsstöðum var með fjögur skógræktarverkefni í gangi í sumar og er þess vænst að vottaðar kolefniseiningar úr þeim verkefnum fari í söluferli í desember – líklegast þær fyrstu sem fylgja forskriftinni.

Sjálf gróðursetningin og framkvæmd hennar fylgir ýmist kröfusetti frá Skógarkolefni eða Gold Standard, eftir því hver verkkaupinn er. Staðfestingin á að skilyrði til framleiðslu kolefniseininga séu eins og lagt var upp með og leiðarvísir fyrirtækjanna sem hyggjast nýta þær einingar í átt að kolefnishlutleysi fylgir áðurnefndri tækniforskrift.

Nokkur lykilatriði í tækniforskriftinni eru m.a. þau að einungis er hægt að framleiða kolefniseiningar úr verkefnum sem gefa einhverja viðbót við núverandi kolefnisbindingu eða draga úr núverandi losun. Gamlir skógar munu því ekki gefa af sér kolefniseiningar – þó þeir bindi kolefni.

Annað lykilatriði er að fyrirtæki eða stofnun sem ætlar að kolefnisjafna sig þarf að fara í allar mögulegar aðgerðir til að draga úr sinni losun. Þegar sýnt hefur verið fram á þann samdrátt með aðgerðaáætlun er hægt að fara í aðgerðir til að kolefnisjafna það sem út af stendur með því að ráðast í loftslagsverkefni eða kaupa kolefniseiningar.

Þriðja atriðið sem skiptir máli er að hver kolefniseining er með ártal og er einungis hægt að nota einu sinni. Skógræktarverkefnið sem Yggdrasil Carbon fór í í sumar, og önnur verkefni af sama meiði, munu ekki gefa af sér vottaðar einingar fyrir árið í ár – heldur er skógurinn 50 ár að ná ætlaðri bindingu og fyrstu einingarnar verða fullgildar eftir átta ár. Þetta eru því einingar í bið og munu eigendur ekki geta notað þær á móti sinni losun fyrr en þeirra ár rennur upp.

Bændablaðið setti sig í samband við nokkra aðila sem komu að gerð tækniforskriftarinnar og voru þeir flestir sammála um að kolefnisbinding og framleiðsla kolefniseininga verði mikilvæg tekjulind fyrir jarðeigendur. Nú þegar ramminn um kolefnisjöfnun er orðinn skýrari og Ísland er búið að lögfesta markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 má reikna með að aukin hreyfing verði í þessum efnum.

Sjá nánar á bls. 20–21. í Bændablaðinu sem kom út í dag ! 

Skylt efni: kolefnisjöfnun