Fyrsta skóflustungan í áratugi
Laugardaginn 24. júní síðastliðinn var fyrsta skóflustungan tekin að byggingu nýs parhúss á Kópaskeri.
Ekki hefur verið byggt nýtt hús á Kópaskeri í áratugi og því um sögulegan viðburð að ræða. Húsið verður við Drafnargötu 4 og er byggt fyrir Leigufélagið Bríet, óhagnaðardrifið leigufélag.
Markmið félagsins er að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar, sem stuðlar að öryggi á langtímaleigumarkaði með sérstaka áherslu á landsbyggðina og í samstarfi við sveitarfélögin í landinu.
„Það hefur verið unnið að þessu verkefni frá árinu 2020 og því stór stund að loksins sé búið að taka fyrstu skóflustunguna. Það hefur líka verið vöntun á húsnæði á staðnum í nokkur ár og það hefur staðið atvinnulífinu og vexti staðarins fyrir þrifum,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings.
Ríflega 120 manns búa á Kópaskeri. Reiknað er með að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar á vordögum árið 2024.