Fyrstu kartöflurnar komnar á markað
„Tíðin í Hornafirði hefur verið góð það sem af er sumri og allur gróður vaxið vel,“ segir Hjalti Egilsson, bóndi á Seljavöllum í Nesjum, en hann tók upp fyrstu kartöflurnar og sendi á markað í síðustu viku.
„Ég tók upp um þrjú tonn til að byrja með og svo önnur tonn daginn eftir. Þetta er allt premier sem er ræktað undir plasti og tíminn sem við tökum þær upp núna er sá sami og í fyrra en munurinn er að þær fóru viku seinna núna en í fyrra þannig að tíðin hefur náð að vinna það upp.“
Hjalti ræktar kartöflur á um 26 hekturum en af því eru ekki nema tveir hektarar af premier og einn undir plasti. Megnið af ræktuninni er aftur á móti gullauga.
Uppskeran lofar góðu
„Ég reikna með að við klárum að taka upp premier kartöflurnar á næstu dögum og að við förum að taka upp gullauga seinna í þessari viku. Uppskeran í ár lofar góðu en eins og við vitum þá getur ýmislegt gerst í kartöflurækt og veðrið ræður.“