Fyrstu naut af nýjum stofni væntanleg í vor
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Fósturvísar af Aberdeen-Angus holdanautgripum frá Noregi voru teknir í maí sl. og stefnt er á að þeir verði settir upp í íslenskar kýr í nýrri einangrunarstöð Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands á Stóra-Ármóti í Flóa í september nk. Gangi það eftir koma fyrstu kálfarnir í heiminn vorið 2018.
Upphaflega var gert ráð fyrir að fluttir yrðu inn 40 fósturvísar fyrir 16–20 kýr en alls náðust 55 fósturvísar frá tveimur búum í Noregi í maí. Fósturvísarnir eru undan þremur nautum og sjö kvígum; kvígurnar eru undan fjórum nautum.
Miklar heilbrigðiskröfur
Nú eru fósturvísarnir í sóttkví en minnst 60 dagar þurfa að líða frá því að fósturvísarnir eru teknir, þangað til þeir eru settir upp í fósturmæður, samkvæmt heilbrigðiskröfum.
„Venjuleg heilbrigðisvottorð, fyrir t.d. sæði, gera ráð fyrir mánaðarbið en þar sem heilbrigðiskröfur innflutningsins eru gríðarlega miklar þá eru allir tímafrestir tvöfaldaðir,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson búfjárerfðafræðingur. Á meðan verður grannt fylgst með gripunum og litið er eftir minnstu sjúkdómseinkennum.
„Ef eitthvað kemur upp á meðan á þessu tímabili stendur verða fósturvísarnir ekki notaðir. Varúðarráðstafanirnar snúast allar um að fyrirbyggja eins og mögulegt er að þessu fylgi nokkur einasta áhætta varðandi sjúkdóma í íslensku búfé,“ segir Baldur Helgi.
Sýklalyfjanotkun hvergi minni
Næsta skref er að Nautgriparæktarmiðstöð Íslands (NautÍs) sækir formlega um heimild til Matvælastofnunar til innflutningsins en fyrir liggja meðmæli Fagráðs í nautgriparækt fyrir innflutningnum.
Samkvæmt reglugerð um innflutning erfðaefnis holdanauta og kröfur um útbúnað einangrunarstöðva nr. 850/2015, með síðari breytingum, er einungis heimilt að flytja inn erfðaefni frá Noregi. Sú skipan byggist alfarið á þeirri staðreynd að heilsufar nautgripa í Noregi er með því besta sem þekkist í heiminum. Sýklalyfjanotkun í landbúnaði er til að mynda hvergi minni en þar.
Einangrunarstöð í byggingu
Þá eru byggingaframkvæmdir á Stóra-Ármóti í fullum gangi. Samkvæmt upplýsingum frá Sveini Sigurmundssyni, framkvæmdastjóri NautÍs, og Búnaðarsambandi Suðurlands, er grunnur og haugkjallari nýrrar einangrunarmiðstöðvar tilbúnir og verið er að steypa veggi.
Angus-kynið er að sögn Baldurs harðgerðir gripir sem henta vel, þar sem búskapur byggir á nýtingu beitar og gróffóðurs. Við val á nautum var lögð áhersla á góða móðureiginleika (mjólkurlagni og léttan burð) og mikil kjötgæði; meyrt og fitusprengt kjöt.