Gjöf til uppbyggingar á skólamann- virkjum í Varmahlíð
Stjórn Menningarseturs Skagfirðinga hefur ákveðið að hætta starfsemi og afhenda sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar allar eigur Menningarsetursins sem eru eftir sölu eigna 214.000.000 króna.
Í ljósi stofnskrár og með hliðsjón af sögu Menningarseturs Skagfirðinga fylgir gjöfinni sú kvöð að þessum fjármunum skal varið til uppbyggingar skólamannvirkja í Varmahlíð.
Menningarsetur Skagfirðinga er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var 1958. Skipulagsskrá hennar var samþykkt af dómsmálaráðherra og forseta Íslands árið 1965. Stofnendur voru áhugafólk um uppbyggingu á skóla og þjónustu í Varmahlíð.
Forveri Menningarseturs Skagfirðinga var Varmahlíðarfélagið sem var stofnað árið 1936, og hafði það meginmarkmið að byggja upp héraðsskóla í Varmahlíð. Til að sú uppbygging gæti orðið að veruleika keypti Varmahlíðarfélagið jarðirnar Reykjarhól og Varmahlíð af ríkissjóði árið 1941, en segja má að þær fjárfestingar hafi verið undirstaðan í allri uppbyggingu í Varmahlíð.
Með tímanum hafa hlutverk og áherslur hjá Menningarsetri Skagfirðinga breyst, sveitarfélögin hafa einnig stækkað og þjónustuhlutverk þeirra aukist í bæði skólamálum sem og á öðrum sviðum. Í ljósi þessa var samþykkt á stjórnarfundi Menningarseturs Skagfirðinga 17. desember 2020 síðastliðinn að hætta starfsemi og afhenda sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar allar eigur Menningarsetursins.