Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Glæsilegt Landsmót hestamanna
Fréttir 12. júlí 2016

Glæsilegt Landsmót hestamanna

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Þótt veðrið hafi ekki beint leikið við gesti og þátttakendur bauð hinn fjöllum lukti Hjaltadalur upp á kynngimagnaða stemningu á 22. Landsmóti hestamanna daganna 27. júní–3. júlí. Um 8.000 manns komu þar saman til að fylgjast með um þúsund íslenskum glæsihrossum í keppni og kynbótadómum.

Þungbúin ský umluktu Hjaltadal flesta keppnisdaga Landsmóts en það hafði lítil áhrif á góða stemningu eða gæði hátíðarinnar. Það var mál manna að mótið hafi verið afar vel heppnað, hvað varðar hestakost, sýningar og aðbúnað manna og hrossa. Var það einróma álit þeirra gesta sem Bændablaðið náði tali af að Hólar í Hjaltadal séu komnir til að vera sem Landsmótsstaður.

Fyrsti keppnisbikarinn fór á loft á föstudeginum þegar Árni Björn Pálsson sigraði í 150 metra skeiði á hryssunni Korku frá Steinnesi. Árni Björn lét þó mikið að sér kveða því um kvöldið varði hann titil sinn í tölti á Stormi frá Herríðarhóli, fékk brons í 250 metra skeiði á Dalvari frá Horni I og var í 2. sæti í æsispennandi úrslitum í B-flokki gæðinga á Loka frá Selfossi.

Bjarni Bjarnason og Hera frá Þóroddsstöðum settu heims- og Íslandsmet í 250 metra skeið þegar þau þutu brautina á Hólum á 21,41 sekúndum. Þau bættu fyrra heimsmet um 0,08 sekúndur. Bjarni og Hera hafa verið í fremstu röð skeiðpara um árabil. Með nýju heimsmeti vörðu þau Landsmótstitil sinn í 250 metra skeiði.

Ungir knapar stóðu sig með prýði

Á laugardegi réðust úrslit í öllum flokkum gæðingakeppninnar og 100 metra skeiði auk þess sem bestu kynbótahross landsins voru heiðruð. Í yngri flokkum fóru þrír drengir með sigur af hólmi. Gústaf Ásgeir Hinriksson, í hestamannafélaginu Fáki, vann ungmennaflokk í annað sinn, nú á Pósti frá Litla-Dal. Hafþór Hreiðar Birgisson úr hestamannafélaginu Spretti sigraði unglingaflokk á hryssunni Villimey frá Hafnarfirði og þá hlaut Léttismaðurinn Kristján Árni Birgisson á Sjéns frá Bringu hæstu einkunn í barnaflokki. Þá reyndist annar ungur knapi, Konráð Valur Sveinsson á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu, fljótasti keppandinn í 100 metra skeiði.

Mesta eftirvænting áhorfenda var þó fyrir A- og B-flokka gæðinga. Í B-flokki etja kappi fjórgangshestar og hafði ungur stóðhestur, Nökkvi frá Syðra-Skörðugili, sigur af Loka frá Selfossi sem háði titilvörn sína. Nökkvi er aðeins 8 vetra, undan Aðli frá Nýjabæ og Glampadótturinni Láru frá Syðra-Skörðugili. Hann var sýndur í kynbótadómi á síðasta Landsmóti en er nú að stíga sín fyrstu skref í keppni.

Eyrún Ýr Pálsdóttir vann A-flokk fyrst kvenna

Mótinu lauk á úrslitarimmu alhliðagæðinga í A-flokki. Stóðhesturinn Hrannar frá Flugumýri II hafði leitt flokkinn í undanrásum og hélt toppsætinu allt þar til yfir lauk. Hrannar, sem er undan Krafti frá Bringu og heiðursverðlaunahryssunni Hendingu frá Flugumýri, hefur sýnt fram á afburðagetu sína í kynbótadómum á undanförnum árum og var meðal annars hæst dæmda kynbótahross ársins 2012, þegar hann hlaut 8,85 í aðaleinkunn. Knapi hans var Eyrún Ýr Pálsdóttir en Hrannar er úr ræktun fjölskyldu hennar. Eyrún Ýr er fyrsta konan sem vinnur A-flokk gæðinga en auk þess hlaut hún Gregersen-styttuna, en hún er veitt þeim knapa sem þykir bera af hvað varðar prúðmannlegan klæðaburð og góða hirðingu á hesti. Þess má einnig geta að Hrannar og Eyrún Ýr eru ríkjandi Íslandsmeistarar í fimmgangi.

Áhrifa Álfadísar gætir víða

„Það hefur aldrei verið jafn gaman að vera hrossaræktandi á Íslandi og í dag,“ ómaði um Hóla þegar bestu kynbótahross mótsins stigu á svið í verðlaunaveitingu. Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur og formaður dómnefndar, sá um að lýsa hrossunum fyrir áhorfendur og þótti hann stórskemmtilegur í starfi þular.

Kynbótaárið 2016 er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Í ár eru 110 ár frá fyrstu kynbótasýningunni sem haldin var í Þjórsártúni árið 1906. Þá eru 100 ár frá fæðingu Sörla 71 en 99% íslenskra hrossa eiga rætur sínar að rekja til hans. Byrjað var að reikna kynbótamat íslenskra hrossa, BLUP-ið svokallaða, fyrir akkúrat 30 árum síðan en út frá þeirri aðferð er spá um kynbótagildi hrossa mæld. Að lokum má nefna að Orri frá Þúfu, sá stólpagripur íslenskrar hrossaræktar, fæddist fyrir 30 árum síðan.

Alls hlutu 157 kynbótahross fullnaðardóm á þessu Landsmóti og enn fleiri voru sýnd í afkvæmasýningum, ræktunarbússýningum og sérstakri úrvalssýningu kynbótahrossa. Mikil breidd og fjölbreytni einkenndi kynbótahrossin og var áberandi hve margir nýir kynbótafeður stóðu að baki hrossunum. Hins vegar bar ein heiðursmóðir af þegar litið er til ætta hrossanna, því 24% af kynbótahrossum sýnd á Landsmóti koma út af Álfadís frá Selfossi. Álfadís, sem er aðeins 20 vetra og enn að gefa folöld, er meðal annars móðir heiðursverðlaunastóðhestanna Álfs og Álfasteins sem hafa gefið af sér fjölmarga góða gæðinga og enn fremur hlaut annar sonur hennar, Álffinnur, afkvæmaverðlaun á mótinu. Þá voru fjögur afkvæmi Álfadísar sýnd í kybótasýningu á mótinu, þau Álfarinn, Álfastjarna, Álfgrímur og Huldumær.

Ölnir frá Akranesi hlaut hæstu einkunn mótsins

Hæstu aðaleinkunn mótsins hlaut Ölnir frá Akranesi, en hann var sýndur í elsta flokki stóðhesta. Ölnir hlaut 8,82 í aðaleinkunn, 8,43 fyrir sköpulag og 9,09 fyrir kosti sem var hæsta hæfileikaeinkunn á mótinu. Þota frá Prestsbæ var hæst dæmda hryssa mótsins, en hún hlaut 8,81 í aðaleinkunn, 8,61 fyrir sköpulag og 8,94 fyrir kosti og stóð efst í elsta flokki hryssna. Í flokki 6 vetra stóðhesta stóð Organisti frá Horni I hæstur með 8,72 í aðaleinkunn, 8,39 fyrir sköpulag og 8,94 fyrir kosti. Jörð frá Koltursey var hæst dæmda 6 vetra hryssan með 8,67 í aðaleinkunn, 8,51 fyrir sköpulag og 8,78 fyrir kosti. Forkur frá Breiðabólsstað stóð efstur 5 vetra stóðhesta með 8,67 í aðaleinkunn, 8,46 fyrir sköpulag og 8,80 fyrir kosti. Í 5 vetra flokki hryssna var Viðja frá Hvolsvelli efst með 8,45 í aðaleinkunn, 8,29 fyrir sköpulag og 8,56 fyrir kosti. Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk var hæst dæmdur 4 vetra stóðhesta með 8,49 í aðaleinkunn, 8,17 fyrir sköpulag og 8,71 fyrir kosti. Stefna frá Torfunesi var hæst 4 vetra hryssna en hún hlaut 8,37 í aðaleinkunn, 8,33 fyrir sköpulag og 8,40 fyrir kosti.

Einkunnin 10 var kveðin upp sex sinnum á mótinu. Ljósvaki frá Valstrýtu hlaut 10 fyrir tölt og stökk. Nútíð frá Leysingjarstöðum II hlaut 10 fyrir hægt stökk. Eðall frá Torfunesi, Roði frá Lyngholti og Fröken frá Bessastöðum hlutu öll fullt hús fyrir skeið.

Sjö hlutu afkvæmaverðlaun

Sjö stóðhestar hlutu afkvæmaverðlaun á mótinu. Þeir Kjerúlf frá Kollaleiru, Seiður frá Flugumýri II, Grunur frá Oddhóli, Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum og Spuni frá Vesturkoti hlutu 1. verðlaun fyrir afkvæmi en sá síðastnefndi stóð þar í efsta sæti. Gaumur frá Auðsholtshjáleigu og Arður frá Brautarholti hlutu síðan heiðursverðlaun fyrir afkvæmi en það kom í hlut Arðs að fá Sleipnisbikarinn.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...