Góð grásleppuveiði en verð er of lágt
Veiðar á grásleppu hafa gengið þokkalega það sem af er yfirstandandi vertíð. Alls fengu 134 bátar leyfi til veiðanna í þá 25 daga sem hverjum báti er úthlutað.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að allmargir bátar hafi lokið veiðum og að nýir séu að detta inn.
„Aflinn það sem af er hefur verið góður en samt minni en á sama tíma á síðasta ári. Verð fyrir aflann hefur hækkað um fjórðung en er samt of lágt miðað við kostnað við veiðarnar. Annað sem er áhugavert er að verð á grásleppuhrognum er lágt miðað við verð sem er að fást fyrir annars konar hrogn sem er í hámarki um þessar mundir.“
Veðrið hefur verið grásleppusjómönnum skaplegt og einn bátur búinn að landa um 60 tonnum, sem er mjög góður afli, en meðaltal á bát það sem af er vertíðinni er um 22 tonn en var um 37 tonn í fyrra, sem helgast meðal annars af því að dögunum var fækkað úr 30 í 25.
Að sögn Arnar hefur ekki tekist að selja grásleppuhveljur til Kína á þessu ári og fer hún í bræðslu.