Gríðarlegir þurrkar
Miklir þurrkar á Indlandi hafa leitt til þess að fólk hefur flúið hundruð þorpa. Hitinn hefur víða farið yfir 50° á Celsíus og ekki er talið að það muni rigna á næstu vikum.
Hitabylgjan sem legið hefur eins og mara yfir hluta Indlands undanfarnar vikur hefur leitt til mikilla þurrka og vatnsskorts. Allt að 90% íbúa í smáþorpum hafa flúið heimili sín í leit að vatni og dæmi eru um að veikir og aldraðir hafi veri skildir eftir.
Yfirvöld segja að þurrkarnir séu verri en þurrkarnir árið 1972 sem leiddu til þess að yfir 25 milljón manns lentu á vergangi og þúsundir létust. Víða er yfirvofandi uppskerubrestur og í framhaldi af honum fæðuskortur og hungur.
Ástæða hitabylgjunnar er veðurfyrirbærið El Nino sem er heiti yfir breytingar á staðvindum í Kyrrahafinu sem valda óvenju háum sjávarhita við miðbaug. Við El Nino ár, þá minnkar úrkoman í Indónesíu, Ástralíu og Indlandi, á sama tíma og úrkoma eykst í Suður-Ameríku og hluta Bandaríkjanna.