Guðjón ráðinn til Ísey
Guðjón Auðunsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ísey útflutnings ehf.
Guðjón er rekstrarhagfræðingur að mennt með víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi að því er fram kemur í tilkynningu frá Ísey útflutningi. Hann lét af störfum sem forstjóri Reita fasteignafélags fyrr á árinu.
„Meginverkefni nýs framkvæmdastjóra, í samvinnu við öflugt teymi starfsmanna Ísey hér á landi og erlendra samstarfsaðila, er að stuðla að enn frekari sókn á erlenda markaði með vöru og vörumerkið „ÍSEY“,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Ísey útflutningur er systurfélag Mjólkursamsölunnar, stofnað árið 2018 í þeim tilgangi að halda utan um erlenda starfsemi og útrás með vörur félagsins. Það er í áttatíu prósenta eigu Auðhumlu en Kaupfélag Skagfirðinga á tuttugu prósent í félaginu.
Í maí bárust fregnir af því að kúabændur á starfssvæði Auðhumlu fengju arðgreiðslu vegna góðs gengis Ísey útflutnings á árinu 2023. Ómar Geir Þorgeirsson var áður framkvæmdastjóri Ísey útflutnings.