Guðrún Rósa er formaður samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga
Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í dag kemur fram að Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir verður formaður samráðshóps, um endurskoðun búvörusamninga, sem gert er ráð fyrir í nýsamþykktum búvörulögum. Hún er skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
„Í lögunum er jafnframt kveðið á um tryggja skuli aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal vinnu hópsins lokið eigi síðar en á árinu 2019,“ segir í tilkynningunni frá ráðuneytinu.
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir er forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og mun samkvæmt tilkynningunni stýra samráðshópi sem samanstendur af sex öðrum fulltrúum sem tilnefndir eru frá Alþýðusambandi Íslands/BSRB, Bændasamtökum Íslands (2 fulltrúar), Neytendasamtökunum, Samtökum afurðastöðva og Samtökum atvinnulífsins.