Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Gunnar Þorgeirsson, bóndi í Ártanga, verður áfram formaður Bændasamtaka Íslands.
Gunnar Þorgeirsson, bóndi í Ártanga, verður áfram formaður Bændasamtaka Íslands.
Mynd / HKr.
Fréttir 1. febrúar 2022

Gunnar sjálfkjörinn formaður Bændasamtaka Íslands

Höfundur: smh

Gunnar Þorgeirsson, bóndi í Ártanga, verður áfram formaður Bændasamtaka Íslands. Frestur til að skila inn framboðum rann út á miðnætti 30. janúar og þar sem ekkert annað framboð barst er Gunnar sjálfkjörinn formaður samtakanna til næstu tveggja ára.

Í tilkynningu á vef Bændasamtaka Íslands er haft eftir Gunnari að eitt af þeim málum sem um áraraðir hafi legið fyrir Búnaðarþingi sé einföldun á félagskerfi bænda og sameining samtakanna í ein öflug heildarsamtök fyrir landbúnaðinn. „Á Búnaðarþingi 2021 var ákveðið að stíga loks þetta stóra skref inn í framtíðina. En núna megum við hvergi hvika og stefnum við ótrauð áfram í að styrkja starfsemi samtakanna, auka sýnileika og ásýnd landbúnaðarins og gera okkur gildandi í umræðu um starfsskilyrði greinarinnar. Bændasamtök Íslands eru og eiga að vera öflug heildarsamtök bænda og sem slík eiga þau að vera leiðandi afl í upplýstri umræðu um landbúnað,“ segir Gunnar.

Í tilkynningu samtakanna er ennfremur haft eftir Gunnari að margvíslegar áskoranir bíði atvinnugreinarinnar á næstu árum, svo sem á sviði loftslags- og umhverfismála, nýsköpunar, matvælaöryggis og örari breytinga á neyslumynstri. Einnig að mikilvægi grasrótarinnar hafi sjaldan verið meira en nú í nýlega sameinuðum og öflugum heildarsamtökum bænda. 

„Neytendur gera sífellt meiri kröfur um fjölbreytt vöruúrval og ferskleika en eftirspurnin innanlands eftir flestum landbúnaðarvörum hefur aukist, ekki síst með aukinni umhverfisvitund. En það er fyrst og fremst öll virðiskeðja matvæla sem skiptir máli því það á að skipta neytandann máli hvernig matvæli eru framleidd og við hvaða aðstæður.“

[…]

„Árið 2022 verður fyrsta heila starfsárið í sameinuðum og öflugum samtökum. En við þurfum að halda áfram. Vinna komandi mánaða mun snúast um áherslur bænda í aðdraganda endurskoðunar búvörusamninga 2023. Áherslurnar þurfa að koma frá grasrótinni og er það von mín að Búgreinaþing komi með skýrar áherslur til stjórnar sem lagðar verða fram við stjórnvöld í aðdragandanum. Þá þurfum við einnig að ljúka þeirri vinnu sem hafin var á Búnaðarþingi 2020, þar sem samþykkt var að horfa til þess að fyrirtæki í landbúnaði yrðu hluti af öflugum hagsmunasamtökum landbúnaðarins. Einnig skiptir það sköpum fyrir samtökin að móta og framfylgja stefnumörkun til næstu ára og tryggja þar með að áherslum á hverjum tíma sé framfylgt og hagað í samræmi við ákvæði samþykkta samtakanna og annarra mikilvægra gilda sem snúa að starfsskilyrðum landbúnaðarins,“ segir ennfremur í tilkynningunni.