Hagnaðurinn 67,1 milljón króna á síðasta ári
Aðalfundur ÍSTEX var haldinn í kjölfar búgreinaþings deildar sauðfjárbænda og aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda á Hótel Natura í Reykjavík fimmtudaginn 23. febrúar.
Þar kom fram að hagnaður af rekstri félagsins á liðnu rekstrarári hafi verið 67,1 milljón króna.
Þrátt fyrir góða rekstrarafkomu er ekki lagt til að arður sé greiddur af hlutafé heldur sé hagnaðurinn notaður til að styrkja fjárhagsstöðu félagsins vegna mögulegra fjárfestinga á næstu misserum.
Að sögn Sigurðar Sævars Gunnarssonar framkvæmdastjóra var aðalfundurinn ágætlega sóttur miðað við fyrri ár. Helstu tíðindin af fundinum séu góð afkoma félagsins og að enn þá sé mikil eftirspurn eftir lopavörum, auk þess sem þörf sé á fjárfestingu í bandframleiðslu.
Sú breyting varð á stjórn ÍSTEX að Unnsteinn Snorri Snorrason fer út en Jóhann Ragnarsson tekur hans sæti. Stjórnina skipa að öðru leyti þau Gunnar Þórarinsson formaður, Jóhannes Sveinbjörnsson, Halla Eiríksdóttir og Guðfinna Harpa Árnadóttir.