Halló Helluvað í 15. skipti
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Halló Helluvað var haldið í fimmtánda skipti sunnudaginn 31. maí. Þá var kúnum hleypt út í sumar og gestir fengu að skoða og knúsa nýfædd lömb í fjárhúsinu.
„Dagurinn heppnaðist frábærlega, hér komu um þúsund manns og áttu góða stund með okkur, mikið af fólki sem við höfum aldrei séð áður. Það er gaman að geta leyft fólki að kynnast sveitalífinu brot úr degi,“ segir Anna María Kristjánsdóttir, bóndi á Helluvaði.
Boðið var upp á glæsilegar veitingar og Sláturhúsið á Hellu sá um að grilla ofan í mannskapinn. Magnús Hlynur Hreiðarsson var á staðnum og tók meðfylgjandi myndir.