Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þær víluðu ekki fyrir sér að hoppa á berbakt í vinnudrögtunum í hádegishléinu, vinkonurnar Þórdís Anna og Margrét Ágústa. Þórdis (tv.) situr Úða frá Útverkum og Margrét (t.h.) Hrapp frá Árbæjarhjáleigu II.
Þær víluðu ekki fyrir sér að hoppa á berbakt í vinnudrögtunum í hádegishléinu, vinkonurnar Þórdís Anna og Margrét Ágústa. Þórdis (tv.) situr Úða frá Útverkum og Margrét (t.h.) Hrapp frá Árbæjarhjáleigu II.
Mynd / ghp
Fréttir 5. nóvember 2021

Hápunktur dagsins að komast í reiðtúr

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Það gustar af vinkonunum Margréti Ágústu Sigurðardóttur og Þórdísi Önnu Oddsdóttur þegar þær renna í hlaðið á hesthúsinu sínu í Hafnarfirði. Oftast eru þær klæddar háhæluðum skóm og drögtum sem hæfa skattalögfræðingi og bankastarfsmanni, en þær skipta því hins vegar fljótt út fyrir vinnusamfestinga merkta Fóðurblöndunni og fara að moka út. Góður reiðtúr er svo hápunktur dagsins.

Hestamennska er viðamikill lífsstíll í íslensku samfélagi en samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi hestamannafélaga eru 12.000 iðkendur á öllum aldri skráðir í hestamannafélög. Meginþorri hestamanna hér á landi eru hvorki atvinnuknapar né hrossaræktendur, heldur falla þeir undir hinn óræða flokk hins almenna útreiðamanns, sem stundar hestamennsku fyrst og fremst til að vera í tengslum við náttúruna og sér til heilsubótar.

Hestamennska er nokkuð yfirgripsmikið áhugamál, í raun ákveðinn lífsstíll. Til að stunda hana þarftu að hafa aðgang að hestum, húsakosti og útbúnaði, þú þarft að kunna til verka og hafa tíma til þess að annast og sinna dýrunum. Það er því ekki beint gengið að því að stunda hestamennsku, hvað þá að njóta hans samhliða annasömu nútímalífi. Þó eru til fyrirmyndardæmi og er saga Margrétar og Þórdísar eitt slíkt. Þær halda sína hesta á húsi hjá hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði og eru þar í hverfinu þekktar undir heitinu Fóðurblöndusysturnar, enda samfestingar merktir fyrirtækinu hálfgerður einkennisklæðnaður þeirra í hesthúsinu.

Sérvitur og sjálfstæð

Þótt vinkonurnar tvær séu afar nánar þá eru þær engu að síður harla ólíkar. Skattalögfræðingurinn Margrét Ágústa er galvösk og létt á bárunni meðan vélaverkfræðingurinn Þórdís Anna er öguð og ábyrg harðkjarnakeppnismanneskja. Saman mynda þær dýnamískt dúó, bæta upp hvor aðra og í sameiningu er ekkert verkefni of stórt fyrir þær.

Hestamennskan hefur fylgt Margréti frá unga aldri og á árum áður stundaði hún hana með Sigurði föður sínum og Ófeigi frænda.

Hestamennskan hefur fylgt Margréti frá unga aldri. Hér er hún, ellefu ára gömul á hestinum Krapa frá Seglbúðum, er hún vann til ásetuverðlauna hjá gæðingamóti hestamannafélagsins Kóps árið 1994. Samkvæmt Margréti er óþarfi að taka það fram en keppendur um ásetuverðlaunin voru einungis tveir.

„Ég þekki ekkert annað en að vera í hestamennsku. Pabbi ól í mig strax mikla ábyrgð, því hann lét mig alltaf sjá alfarið um hrossin, hvort sem var að gefa, moka, ormahreinsa eða hvað annað. Ég man eftir mér 8 ára í Melaskóla á skrifstofu skólastjórans að fá að hringja í Guðbrand Óla og panta hestaflutninga. Síðan var mér bara skutlað upp í hesthús og ekki sótt fyrr en seint og um síðir, eftir að hafa mokað út, gefið, hreyft hrossin og klárað allt kexið á kaffistofunni. Skal reyndar viðurkenna að Ófeigur frændi var mér oftast til halds og trausts, en við þurfum kannski ekkert að vera að taka það fram. Ég ætlaði alltaf að verða bóndi, ég var með rokk inni í herberginu mínu, klæddist oftast gúmmítúttum og vildi helst búa í torfkofa og tala í bundnu máli. Jesús, hvað ég hef verið spes krakki, svona þegar ég heyri mig segja þetta, almáttugur.“

Vélavanur nýliði

Á meðan hestamennskan er Margréti í blóð borin er tiltölulega stutt síðan Þórdís hóf sína vegferð inn í lífsstílinn.

„Ég byrjaði fyrir hálfgerða tilviljun. Þegar afi minn, Einar Þorkelsson, lést árið 2013 skildi hann eftir sig jörðina Útverk á Skeiðum og 20 hesta stóð. Út frá því förum við Einar, bróðir minn, að kynna okkur betur hestamennskuna og fundum okkur gjörsamlega í öllu því sem henni fylgir. Í dag er ég áhugabóndi og knapi. Við sjáum um landið á Útverkum, girðum, brynnum, bjóðum upp á hagabeit o.s.frv. Ég er líka með kerrupróf og rosalega góð á traktor,“ segir hún.

Þórdís hóf sína hestamennsku fyrir aðeins átta árum og er nú kolfallinn áhugabóndi og knapi. Hér má sjá Elías, son Þórdísar, sitjandi á Kapteini frá Miðhjáleigu, fyrsta hestinum sem Þórdís settist á, féll fyrir og keypti í framhaldi. Sjálf situr hún Spak frá Borg.

„Þú ert líka afskaplega dugleg að laga tækin, skipta um glussa og svona. Ég er aftur á móti meira bara handlangarinn í okkar sambandi,“ stingur Margrét inn í.

Þórdís á ekki langt að sækja vélaáhugann því faðir hennar er framkvæmdastjóri í fjölskyldufyrirtækinu Þór hf. sem meðal annars flytur inn dráttarvélar og önnur landbúnaðartæki. „Ég er stundum kölluð Kubota-drottningin,“ segir Þórdís og hlær.

„Ég skal alveg viðurkenna það að þú ert leiðtoginn á traktornum. Þú kannt að keyra hann, bakka og setja á gaffla og svona. Ég upplifi mig samt rosalega töff þegar ég er skoppandi í hliðarsætinu,“ segir Margrét.

Valdeflandi að vera sjálfbjarga

Hestamennska vinkvennanna snýst sem sagt ekki eingöngu um almennar útreiðar. Jörðin kallar á ýmsar skyldur s.s. að halda girðingum við, reka stóðið milli stykkja, brynna og sinna hrossum sem þar eru á beit. Þá víla þær ekki fyrir sér hesta- né stórbaggaflutninga eftir að Þórdís Anna fékk kerrupróf.

„Við erum mjög sjálfstæðar í okkar hestamennsku. Það getur alveg verið töluvert vesen að keyra austur fyrir fjall og sækja fimm bagga af heyi. Baggarnir eru 250 kíló og það þarf að velta þeim og koma þeim á kerru og í hús. Þetta er samt rosalega góð líkamsrækt,“ segir Þórdís.

Vinkonurnar hafa að leiðarljósi að geta séð alfarið um allt sem tengist hestamennskunni þeirra, hvort sem það er að girða af beitarstykki, gangsetja, skaufahreinsa, moka eða flytja hross og hey landshluta á milli.

„Það er alveg sjúklega þreytandi oft að vesenast með baggana, sérstaklega þegar maður þarf að fara að velta þeim inn og er bara einn. Þá fæ ég yfirleitt alltaf einhvern úr hverfinu til að hjálpa mér, en Þórdís er svo mikill trukkur að hún getur velt þeim inn sjálf,“ segir Margrét.

Þá hafa þær að leiðarljósi að geta séð alfarið um hrossin sín, hvort sem það heitir að skaufahreinsa eða gangsetja. Í haust ákváðu þær svo að setjast á skólabekk hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

„Við skráðum okkur í Reið­manninn sem er 2 ára nám hannað fyrir fólk samhliða vinnu. Bóklegir tímar fara fram á kvöldin á netinu. Einu sinni í mánuði eru staðlotur og verklegir tímar í Samskipahöll Spretts en þess á milli þurfum við að vinna með hestana. Þarna er farið í grunntengingar, hvernig maður fær hest til að skilja sig og hvernig við getum frekar skilið hann og lesið í aðstæður. Ég vildi sækja þetta nám þar sem ég var ekki með neinn grunn í reiðmennsku þar sem ég byrjaði svo seint. Í stað þess að fá mér tíma hjá reiðkennara ákvað ég bara að taka þetta markvisst fyrir gegnum þetta nám,“ segir Þórdís og Margrét sló þá líka til.

„Maður getur alltaf bætt sig sem knapi, hversu lengi sem maður hefur verið í hestamennsku. Þó ég sé búin að vera á baki síðan ég var okfruma og get í raun kannski alveg haldið mér á baki á hvaða hrossi sem er, þá verður að viðurkennast að ásetan gæti verið glæsilegri. Hestamennska fyrir 20–30 árum er allt önnur en hún er í dag. Núna er mikil áhersla lögð á rétta ásetu. Þórdís byrjaði seint en situr rétt því hún lærir þetta allt nýtt. Ég sit hins vegar í kuðung og þarf allt í einu að fara að venja mig á eitthvað annað. Það er mikil áskorun að leiðrétta blessaða sveitaásetuna og fyrir mér eins og að rétthent manneskja þurfi að læra að skrifa með vinstri,“ segir Margrét.

Í vetur stunda vinkonurnar nám hjá Landbúnaðarháskólanum og ætla að láta til sín taka í áhugamannadeild Equsana í hestaíþróttum 2022. Þórdís (t.v.) situr á Toppi frá Litla-Moshvoli og Margrét (t.h.) á Hrappi frá Árbæjarhjáleigu II.

„Við þurfum að læra að gera ábendingar og koma þeim frá okkur á þann hátt sem hesturinn skilur og gæta að því að vera alltaf fylginn sér. Það þýðir ekkert að gera hlutina bara stundum, því þetta er spurning um að tala við hestinn svo hann hlusti og læri að bregðast við. Þetta eru skemmtilegar aðferðir sem byggja á umbun. Þannig að um leið og hesturinn svarar ábendingu er honum umbunað fyrir að gera rétt. Við getum svo yfirfært þessar aðferðir á alla hina hestana okkar,“ segir Þórdís.

Keppa í áhugamannadeild

Í vetur ætla þær að láta reyna á getu sína í reiðmennsku og taka þátt í áhugamannadeild Equesana í hestaíþróttum.

„Magga fékk símtal frá Birnu Ólafsdóttur þar sem hún óskaði eftir því að við yrðum með henni og fleirum í liði í áhugamannadeildinni. Við ákváðum að slá til en gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta er mikil vinna en um leið líka mikil áskorun. Þetta verður góð leið til að halda okkur á tánum í vetur, reyna að ná því besta út úr hestunum okkar,“ segir Þórdís og Margrét er samsinna.

„Þó Þórdís segi að við séum bara með til að hafa gaman, þá er hún ein mesta keppnismanneskja sem ég þekki og þrjóskari en allt. Sama hvað hún segir þá er hún bara alls ekki með í þessari deild til að hafa gaman, heldur til að vinna og ná árangri. Hún er líka bókað strax byrjuð að undirbúa æfingar og athuga með hestakosti þrátt fyrir að deildin byrji ekki fyrr en í febrúar.“

Þórdís viðurkennir að þetta sé nokkuð rétt hjá Margréti. Hún segist líka vera afar tapsár sem tvíeflir keppnisskapið hennar. „Ég mun krossa fingur upp á að hún vinni frekar en ég,“ segir Margrét og hlær.
Aðrir liðsmenn í liðinu, utan Margrétar og Þórdísar, eru Birna Ólafsdóttir, Bergdís Finnbogadóttir, Guðrún Sylvía Pétursdóttir og Viggó Sigurðsson.

Bakbrynjan jafn sjálfsögð og hjálmur

Þó hún hafi byrjað seint var Þórdís aldrei hrædd á hestbaki, enda þekkt fyrir framfærni.

„Óttaleysið kom svo algjörlega í bakið á mér. Ég fór alltof bratt af stað og endaði með að vera hent af baki af lítið tömdum hesti sem ég hélt ég gæti alveg verið á og réði við. Það reyndist kolrangt og ég endaði úr axlarlið, í sjúkrabíl, með morfín í æð og er núna með stálplötu í öxlinni. Ég hef því fengið að súpa seyðið af slíkri fífldirfsku og er bara heppin að ekki fór verr.“

Margrét segir í raun mikla mildi að ekki hafi farið verr. Slysið hafði þau áhrif á vinkonurnar að í dag ríði þær alltaf út í bakbrynjum.

Hestaslys sem Þórdís lenti í varð til þess að vinkonurnar ríða nú aldrei út án bakbrynju. ,,Þær eru fisléttar og töff og gera aldrei ógagn. Ég er sannfærð um að eftir 5-10 ár verði allir með bakbrynjur,“ segir Margrét.

„Maður ver höfuðið með hjálmi og það er sjálfsagt. Það sama á við um bakbrynju, þær eru fisléttar og töff og gera aldrei ógagn. Ég er sannfærð um að eftir 5-10 ár verði allir með bakbrynjur, þær þurfa bara að verða sýnilegri,“ segir Margrét.

Forréttindi og lífsgæði

Í vetur eru vinkonurnar með fimm hross á húsi í þjálfun.„Þegar maður er í fullri vinnu með hestamennskunni þá eru 2-3 hestar á húsi algjört hámark ef maður ætlar að iðka þetta af alúð. Það erfiðasta við hestamennskuna er nefnilega yfirþyrmandi samviskubitið sem maður fær þegar maður veit af hestunum sínum óhreyfðum. Maður vill geta haft þá mikið úti og í reglulegri þjálfun,“ segir Þórdís en þær segja að samstarfið þeirra á milli geri það að verkum að þeim tekst vel til. „Þetta er mjög áreynslulaust samstarf enda er hápunktur dagsins fyrir okkur báðar að komast upp í hesthús,“ segir Margrét.

Þær segja hestamennsku vera gott mótvægi við hraða nútímalífsins. Hvergi sé að finna betri núvitund en að vera á hestbaki. „Maður hugsar þá bara eingöngu um stað og stund og slíkt veitir manni hvíld frá ákveðnu hugarangri og áhyggjum,“ segir Margrét.

„Þetta eru í raun svo mikil lífsgæði. Hestamennskan tikkar í svo mörg box. Þú ert úti, með dýrum og sinnir heilsunni. Hestamennska tekur frá manni allt stress, hvort sem það er að moka skít eða vinna með hestana, þeir eru sálfræðingar, ótrúlegir karakterar og vinir manns,“ segir Þórdís.

„Við tölum oft um hvað við erum heppnar, að geta komið frá löngum fundardegi í vinnunni og farið svo bara í reiðtúr. Maður hvílir hugann við að vera í nærveru við dýrin. Þetta eru forréttindi og jafnar borgarlífið út. Það er ómetanlegt að fá að njóta þess líka með bestu vinkonu sinni,“ segir Margrét.

Þær eru knapar, framakonur, mæður og bestu vinkonur sem myndu gjarnan vilja vera áhrifavaldar af nýja skólanum. Þórdís Anna Oddsdóttir, vélaverkfræðingur og sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka og Margrét Ágústa Sigurðardóttir, skattalögfræðingur og skattaráðgjafi hjá PwC, vita ekkert betra en að komast í góðan útreiðatúr eftir annasaman vinnudag. Á meðan hestamennskan er Margréti í blóð borin er tiltölulega stutt síðan Þórdís hóf sína vegferð inn í lífsstílinn. Þær segja hestamennsku heilsubætandi lífsstíl sem jafni út hraða borgarlífsins. Mynd / Jikke Patist

Hvernig hross væru þið?

Margrét: Ég væri fjölhæfur alhliðahestur, allur pakkinn. Þórdís væri eftirtektarverðari í reið. Hún væri að keppa í tölti. Ég væri ekki farsæl í keppni en væri sjálfsagt fyrsta hrossið sem farið væri með á fjall.

Þórdís: Ég er sannfærð um að ég væri með gott afturfótaskref og hágeng, töltprinsessa með 10 fyrir byggingu. Magga væri samt með betra geðslag. Þú vissir að hverju þú myndir ganga þegar þú færir á hana Möggu. Ég væri líklega dyntótt meri.

Margrét: Ég væri jálkurinn og kæmi glettilega á óvart á gangi – hesturinn sem allir vilja eiga en enginn tímir að eyða fé í. Allir myndu vilja Þórdísi, sem fengi bókað 10 fyrir bak og lend.

Þórdís: Magga fengi 10 fyrir bóginn. Við værum báðar án vafa fyrstu verðlauna hryssur, en ég væri samt með hærra BLUP.

Margrét: Ég væri með hærra BLUP! Við höfum oft deilt um þetta. Egill Skallagrímsson er forfaðir minn alveg í 28. lið, en bara þinn í 29. lið!  Þú sagðir samt einhvern tímann að þú værir sýningarhrossið en ég vinnuhrossið. Það er kannski í raun lýsandi fyrir okkar vináttu.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...