Hefur bylt forsendum búsetu og atvinnu í sveitum landsins
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti á dögunum árangur og samfélagslegan ávinning af landsátakinu „Ísland ljóstengt“ á kynningarfundi í ráðuneytinu.
Þar var einnig kynnt ný skýrsla um verkefnið, sem leiðir í ljós að betri fjarskiptatengingar hafa bætt lífsgæði íbúa á landsbyggðinni og aukið byggðafestu og atvinnuöryggi. Landsátakinu „Ísland ljóstengt“ lýkur á þessu ári, en síðustu styrktarsamningar Fjarskiptasjóðs við sveitarfélög um ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli utan markaðssvæða voru undirritaðir í lok síðasta mánaðar.
Alls hafa 57 sveitarfélög hlotið styrki til að tengja um 6.200 styrkhæfa staði með ljósleiðara frá því að verkefnið hófst árið 2016 en á þeim tíma hefur ríkið lagt 3.350 milljónir króna til verkefnisins. Í fréttatilkynningu um verkefnið kemur fram að verkefnið hefur staðist áætlanir um kostnað og tíma þrátt fyrir um 60% aukningu á umfangi.