Heimildamynd um flugslysið við Svartahnjúk
Ríkissjónvarpið sýnir í kvöld heimildamyndina „Svartihnjúkur – stríðssaga úr Eyrarsveit“. Myndin segir frá því þegar sex breskir hermenn fórust í flugslysi á Snæfellsnesi í nóvember 1941. Íslenskir bændur voru rifnir úr hversdagslegum búverkum til þess að fara á fjöll að leita að týndri herflugvél. Lýsingar þeirra á skelfilegri aðkomu og líkburði hafa lifað fram á þennan dag.
Líkamsleifar fjögurra hermanna fundust en tvö lík hafa aldrei fundist. Talið er að þau sé að finna í gili við Hrafnafoss. Skýrslur breska flughersins eru fáorðar um þetta sérkennilega mál. En í Eyrarsveit á Snæfellsnesi hafa menn í áratugi sagt sögur af örlögum þeirra sem saknað er. Í myndinni er rætt við bændur og aðra sem segja söguna af flugslysinu við Svartahnjúk.