Hópur nemenda í kynnisferð til Kýpur
Tólf nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi skruppu til Kýpur með kennurum sínum 19.–27. mars. Dagskráin snerist um fyrirlestra um umhverfismál og neysluvatn, kynningu á sjálfbæru fiskeldi, framsetningu á listrænum skilaboðum, um gildi vatns og rannsókn á náttúrulegri vatnsuppsprettu.
„Já, það er rétt, við erum nýkomin heim frá Kýpur, 12 nemendur, ásamt mér, Ágústu Ragnarsdóttur, og Eyrúnu Björgu Magnúsdóttur. Við vorum að taka þátt í Erasmus+ samstarfsverkefni sem FSu er aðili að. Samstarfslöndin eru Þýskaland, Kýpur, Reunion (frönsk eyja) og Azoreyjar (portúgölsk eyja). Tilgangur og markmið er að framfylgja markmiði verkefnisins og að kynnast nýrri menningu og að þétta samstarf milli Evrópuþjóða,“ segir Ágústa, aðspurð um ferðina.
Nemendur og kennarar komu frá fimm löndum. Auk Íslands voru það Kýpur, sem voru gestgjafar í þetta sinn, Azoreyjar (heyra undir Portúgal), Reunion eyja (heyrir undir Frakkland) og Þýskaland. Hér er hópurinn staddur á fyrirlestrum um stöðu umhverfismála á Kýpur. Mynd / Aðsend
Grænfánaverkefni skólans
„Reduce verkefnið miðar að því að draga úr vist- og kolefnisspori, „Reduction of our Ecological footprint anD oUr Co2 Emission“ og það er dregið saman í skammstöfuninni „REDUCE“.
Þetta verkefni rímar mjög vel við þemu Grænfánaverkefninsins, sem skólinn er hluti af, sem eru loftslagsbreytingar og samgöngur ásamt vistheimt. Hlutverk okkar skóla er að leiðbeina með plöntunarverkefni og einnig kynna fyrir öðrum áhrif hlýnunar á vistkerfið og jökla landsins,“ segir Ágústa.
Nemendur úr umhverfisfræði
Eyrún segir að hluti nemendanna sem fóru út séu í umhverfisnefnd skólans og í umhverfisfræði í skólanum.
„Einnig fannst okkur mikilvægt að hafa fulltrúa úr nemendaráði þar sem svona verkefni hafa legið í dvala undanfarin tvö ár og gott að deila þekkingu um þau meðal nemenda. Dagskráin snerist um fyrirlestra um umhverfismál og neysluvatn, kynningu á sjálfbæru fiskeldi, framsetningu á listrænum skilaboðum um gildi vatns og rannsókn á náttúrulegri vatnsuppsprettu. Aðaláherslan frá Kýpur-þátttakendum var t.d. á neysluvatn,“ segir Eyrún.
Reglur um klæðaburð og útlit
Hópurinn gerði ótrúlega margt og mikið á Kýpur.
„Ó já, það var gífurlega margt áhugavert sem við sáum. Til að mynda fór hópurinn í fjallgöngu þar sem gengið var meðfram læk og fengin leiðsögn um uppsprettur og gæði vatnsins. Einnig var bent á hvar uppsprettur hafa þornað upp og að sýnilegur skortur sé á vatni úr náttúrunni.
Í fjallgöngunni mældi hópurinn hitastig og ph gildi vatnsins og verða þær niðurstöður nýttar í lokaskýrsluna. Í sömu ferð var farið í um 1.200 metra hæð til að borða og er við rennum í hlað byrjar smá snjófjúk. Það var mjög áhugavert að sjá fólk þar upplifa snjó í fyrsta sinn.
Sumir nemendur áttu erfitt með að koma sér inn vegna spennunnar við þessi örfáu korn,“ segir Ágústa og hlær. Eyrún kemur hér inn í viðtalið og bætir við: „Við fórum líka á austasta hluta Kýpur, og þar með Evrópusambandsins, Cape Greco. Þar er mikil náttúrufegurð, hellamyndun, fuglalíf og að sjálfsögðu mikið um ketti sem fagna gestum með virktum.
Skólakerfið vakti mikla athygli líka. Stórir og fínir skólar en miklar reglur um klæðaburð og útlit. Til dæmis mega nemendur ekki mæta með skartgripi eða litað hár.“
Miklar andstæður
Þegar Ágústa og Eyrún eru spurðar út í Kýpur, hvernig þær myndu lýsa landinu, fólkinu og umhverfinu vefst þeim ekki tunga um tönn.
„Það var mjög áhugavert að sjá hversu miklar andstæður eru í samfélaginu, bæði náttúru og menningu. Við vorum í höfuðborginni og borgin og eyjan öll er snyrtileg og vel hirt, en að sama skapi er nánast engin flokkun á rusli, töluverð matarsóun og greinileg stéttaskipting. Við kennararnir fórum yfir landamærin á yfirráðasvæði Tyrkja og sáum með eigin augum yfirgefin svæði þar sem áður bjuggu Kýpverjar. Það var greinilegt í samtali við Kýpverja að það eru djúp sár og óuppgerð mál varðandi þessa innrás fyrir tæpum 50 árum síðan,“ segir Eyrún.
Mikill kynjahalli
Ágústa segir íbúa á Kýpur mjög gestrisna og vinalega. – „Já, okkur leið nánast eins og að þjónar væru hluti af fjölskyldunni og gestgjafar okkar lögðu mikið á sig við að aðstoða og kynna land og þjóð fyrir okkur. Maturinn er ofboðslega góður og gaman að njóta hans. Það er almennt mikil gleði í fólkinu og frekar afslappað andrúmsloft. Allavega það sem við sáum og umgengumst. En við urðum einnig vitni að því að það er enn mikill kynjahalli og samskipti kynjanna frekar gamaldags að okkar mælikvarða. Úti á götu er enn kallað á eftir stelpunum og allt látbragð augljóst varðandi eignarrétt karlmannsins á samskiptunum. Krakkarnir voru yfir sig hneyksluð,“ segir Ágústa.
Góð samvinna
Að lokum eru þær stöllur spurðar út í hápunkt ferðarinnar, hvort eitthvað sérstakt hafi staðið upp úr?
„Öll samvinnan, milli ólíkra menningarhluta, ólíkra einstaklinga, ólíks aldurs, þar sem að hver dagur var mjög þéttur og langur en endaði alltaf á jákvæðum nótum. Við tókum þátt í að hreinsa strönd, ganga fjöll, skoða hella, skoða sjálfbært fiskeldi, hátíðarhöldum á sjálfstæðisdegi Grikklands, gróðursetningu, dansæfingum, sköpun listaverka tengdum alþjóðlega vatnsdeginum og fengum góða og ítarlega fyrirlestra um vatn og flokkun. Okkur finnst erfitt að taka eitthvað eitt sér út úr þessu, annað en þessa góðu samvinnu sem einkenndi ferðina,“ segir Ágústa og Eyrún tekur heilshugar undir orð hennar. Nemendur voru búnir að vinna verkefni um neysluvatn á Íslandi áður en þau fóru út. Núna þurfa þau að skila verkefni í formi dagbókar sem nýtist svo í lokaskýrslu verkefnisins í sumar. Einnig taka þau þátt í að taka á móti hópi nemenda og kennara úr þessu verkefni sem koma til Íslands um miðjan maí.“
Þakklátar og hlakka til framhaldsins
„Mig langar líka að bæta því við að það er ómetanlegt nám sem gerist í svona ferðum og dýrmætt að það sé aftur komið tækifæri til að stunda þessi samstarfsverkefni. Sem betur fer hefur FSu verið virkur í samstarfsverkefnum í gegnum tíðina og því töluverður fjöldi nemenda sem hefur fengið að upplifa þátttöku í þeim. Nemendur koma öllu jöfnu sjálfstæðari og sterkari til baka og með jákvæða upplifun á nágrannaþjóðum okkar. Við erum þakklátar að hafa fengið að fara með nemendum og hlökkum til framhaldsins,“ segir Ágústa.