Hrina gjaldþrota í dönskum landbúnaði
Höfundur: landbrugsavisen - ehg
Á síðastliðnu ári hafa nálægt tvö hundruð gjaldþrot í dönskum landbúnaði verið skráð og hefur slíkur fjöldi ekki mælst síðan 1994.
Nú óttast Danir að talan muni hækka enn frekar og skýrist það að mestu af lágu mjólkur- og svínakjötsverði.
Í mars voru skráð 31 gjaldþrot í dönskum landbúnaði en til samanburðar voru um 13 gjaldþrot skráð mánaðarlega undanfarin ár. Er þetta því rífleg tvöföldun og hafa Danir miklar áhyggjur af ástandinu. Bændur ákveða að hætta sjálfir og finna enga útleið í gegnum margra ára baráttu við lág heimsmarkaðsverð og lélega fjárhagsstöðu. Fyrstu þrjá mánuði ársins voru 72 gjaldþrot í dönskum landbúnaði en 42 á sama tímabili í fyrra.