Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hlaðið á Hótel Fljótshlíð. „Það er frábært að geta stungið bílnum í samband um leið og maður nýtur náttúru, matar eða afþreyingar og koma svo til baka að fullhlöðnum bíl,“ segir Lella Erludóttir, markaðsstjóri Hey Iceland.
Hlaðið á Hótel Fljótshlíð. „Það er frábært að geta stungið bílnum í samband um leið og maður nýtur náttúru, matar eða afþreyingar og koma svo til baka að fullhlöðnum bíl,“ segir Lella Erludóttir, markaðsstjóri Hey Iceland.
Mynd / Lella Erludóttir
Fréttir 1. ágúst 2019

Hringferð um landið á rafbíl er raunhæfur kostur

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Notkun rafbíla á Íslandi hefur aukist á undanförnum árum og sífellt fleiri kjósa þann sam­göngumáta. Rafbílar henta mjög vel í þéttbýli þar sem aðgengi að hleðslustöðvum er gott og þegar fólk getur hlaðið heima. Þessi ferðamáti hefur þó ekki þótt fýsilegur í lengri ferðir því drægnin hefur ekki verið nægilega mikil og skortur hefur verið á hleðslustöðvum á landsbyggðinni. Starfsmaður Hey Iceland fór á dögunum í hringferð um landið á rafbíl til þess að reyna á eigin skinni hvernig það er að ferðast um á slíkum farkosti. 
 
Lella Erludóttir, markaðsstjóri Hey Iceland, fór hringferð um Ísland á rafmagnsbíl til að finna á eigin skinni hvernig ferðamátinn reynist. 
 
Lella Erludóttir, markaðsstjóri Hey Iceland, sem áður hét Ferðaþjónusta bænda, fór í hringferð ásamt dóttur sinni á dögunum á Volkswagen rafbíl. Hey Iceland hyggur á markaðssetningu á ferðum þar sem ferðamenn nota rafbíla á sínu ferðalagi. Nú þegar er ein slík fjögurra daga ferð í boði um Suðurlandið. Hleðslustöðvum hefur fjölgað síðustu misseri og að mati Lellu skapar það ný tækifæri fyrir fyrirtækið og ferðamenn, bæði innlenda og erlenda. 
 
Bændur og gististaðir á landsbyggðinni leika mikilvægt hlutverk
 
„Á undanförnum mánuðum hefur verið stoppað í öll göt í hleðsluneti landsbyggðarinnar og þá fer það loks að verða raunhæfur kostur að ferðast á rafbíl um landið. Þetta felur í sér mikil tækifæri fyrir íslenska rafbílaeigendur sem vilja eiga þessa kost að nýta rafskjótann til ferðalaga út fyrir eigið þéttbýli. Einnig eru hér að fæðast tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila sem vilja bjóða upp á umhverfisvænni kost í ferðaþjónustu,“ segir Lella. Hún segir jafnframt að það sé lykilatriði að ferðamennirnir geti hlaðið ökutækið yfir nótt á gististað til að hafa fullan og ferskan rafgeymi í upphafi hvers dags. „Hér leika bændur og gististaðir á landsbyggðinni mikilvægt hlutverk,“ segir hún. 
 
Farskjótinn hlaðinn á Sölvanesi yfir nótt. Myndir / LE
 
Setjum okkur í spor ferðamannsins
 
Hringferðin var hluti af vöruþróun og samstarfi í tengslum við verkefnið Hleðsla í hlaði sem er samstarfsverkefni Hey Iceland, Bændasamtaka Íslands og Orkuseturs. Verkefnið hefur einnig notið stuðnings frá bílaleigu Akureyrar sem á og rekur nokkra rafbíla. 
 
„Markmið ferðalagsins var að setja sig í spor ferðamannsins, skoða og upplifa á eigin skinni hvort hringferð sé raunhæfur kostur. Ætlunin var einnig að kortleggja þær áskoranir sem slíku ferðalagi fylgja og taka þann lærdóm áfram inn í vöruþróun Hleðslu í hlaði,“ segir Lella.
 
Tækifæri í umhverfisvænni ferðaþjónustu
 
Hún segir að tækifærin séu ótalmörg í því að bjóða upp á rafbíla sem raunhæfan kost á ferðalögum um landið og að það sé mikilvægur þáttur í því að lyfta Íslandi upp sem umhverfisvænum áfangastað. „Með slíkum ferðum er hægt að bjóða afþreyingu og upplifun sem styðja við náttúruvernd, sjálfbærni og ábyrga ferðaþjónustu. Af nógu er að taka og ferðaþjónustuaðilar á Íslandi eru sífellt að verða meðvitaðri um mikilvægi þess að styðja við umhverfisvernd og sýna hana í verki,“ segir Lella. 
 
Tilgangur ferðalaga er meðal annars að slaka á og njóta lífsins. Hleðsla rafbíla tekur mun lengri tíma heldur en að fylla bensínbíl og það þarf að stoppa oftar yfir daginn til þess að hlaða bíla með lága drægni. 
 
Yfirleitt ekki meira en 100 km á milli hleðslustöðva
 
Ferðalagið hjá Lellu gekk að óskum þótt það væri ekki áfalla- eða streitulaust. „Að ferðalaginu loknu sé ég að hleðslunetið er fyrir hendi og hringferð um landið er vel möguleg að sumri til á nýlegum rafbíl með góða drægni. Hleðslustöðvar eru aðgengilegar allan hringinn og yfirleitt ekki mikið meira en 100 km á milli stöðva. Það er frábært að geta stungið bílnum í samband um leið og maður nýtur náttúru, matar eða afþreyingar og koma svo til baka að fullhlöðnum bíl. Í hraðhleðslustöð nær bíllinn fullri hleðslu á 30–40 mínútum. Það er fullkomin tímalengd til að ganga um hverasvæðið í Haukadal, baða sig í Bláa lóninu, fá sér heilsubótargöngu í Skaftafelli eða klappa húsdýrum í sveitaheimsókn. Einnig var mikilvægt að geta stungið ökutækinu í samband í hleðslustöð á gististað.“ 
 
Ekki alltaf auðvelt
 
En hringferð á rafbíl er ekki bara gulli slegin upplifun hlaðin tækifærum og ilmandi rósum. Áskoranirnar eru margar og sumir þröskuldarnir háir eins og tíminn sem fer í hleðslu á hverjum viðkomustað. 
 
„Markmiðið ferðalangs á rafbíl ætti að vera það að stoppa ekki bara til að hlaða, heldur að hlaða um leið og stoppað er til að njóta náttúru eða þjónustu. Það er þó ekki alltaf raunhæft. Oft þarf að stoppa til þess eins að hlaða og hleðslustöðin í það skiptið er kannski ekki staðsett á besta stað. Hleðsla rafbíla tekur mun lengri tíma heldur en að fylla bensínbíl og það þarf að stoppa oftar yfir daginn til þess að hlaða. Þetta lengir ferðalagið sem því nemur,“ segir Lella. 
 
„Hleðslustöðvar eru fáar á hverjum stað og yfirleitt bara hægt að hlaða einn bíl í einu. Þetta getur lengt biðina og ferðalagið enn meira, sérstaklega ef bíða þarf eftir að bíllinn á undan klári sína hleðslu áður en hægt er að stinga í samband. Einnig getur það komið fyrir að bensínbílum sé lagt í öll stæði í kringum stöðina og ekki sé því hægt að koma rafbílnum að stöðinni strax. Þessu þarf að gera ráð fyrir.“ 
 
Tvö kerfi hraðhleðslustöðva
 
Nú eru í gangi tvö kerfi hraðhleðslustöðva, annars vegar frá ON og hins vegar Ísorku. Kerfin eru algjörlega aðskilin og þarf að sækja um og ferðast með greiðslulykla fyrir bæði kerfin. 
„Greiðslulausnum stöðvanna er verulega ábótavant, en best væri ef hægt væri að aka upp að hvaða stöð sem er og greiða fyrir rafmagnið með greiðslukorti í stað lykils. Þetta á sérstaklega við þegar ökumaður telur sig vita af hleðslustöð á áfangastað, en kemst svo að því að hún tilheyrir kerfi sem hann er ekki með greiðslulykil hjá. Þá er illa fyrir honum komið, því þótt hann sé við það að verða rafmagnslaus er engin leið að fá hleðslu nema vera með réttan lykil og ekki er hægt að fá lánaðan lykil þótt stöðin sé staðsett á bílastæði bensínstöðvar sem býður upp á þjónustu. Hér tala ég af sárri og biturri reynslu sem olli hjartsláttartruflunum og kvíðakasti á ferðalaginu!“ segir Lella. 
 
Akstursaðstæður breytilegar
 
Á rafbílaferðalagi þarf að taka með í reikninginn að bíllinn eyðir meiru þegar kalt er í veðri, þegar ekið er upp brekkur, í mótvindi eða þegar miðstöðin er í gangi og kveikt er á útvarpinu. Það er því ekki á færi viðkvæmra eða taugatrekktra að ferðast um landið á rafbíl eins og staðan er í dag, en það er sannarlega mögulegt að mati Lellu. 
„Tækifærin eru til staðar og ég hef trú á því að mikil framfaraskref verði stigin á næstunni til þess að gera Ísland enn hentugra til ferðalaga á rafbíl með fleiri hleðslustöðvum, aðgengilegri greiðslulausnum og um fram allt fleiri hleðslustöðvum í hlaði hjá íbúum landsbyggðarinnar.“
 
 
16 bændur bjóða hleðslu
 
Þátttakendur í verkefninu Hleðsla í hlaði eru nú orðnir sextán talsins og bjóða þeir sínum viðskiptavinum að hlaða meðan á heimsókn stendur. Betur má þó ef duga skal til að þétta net bændahleðslunnar um landið. „Það væri frábært að sjá fleiri aðila ganga til liðs við verkefnið og setja upp hleðslustöð í sínu hlaði,“ segir Lella Erludóttir, markaðsstjóri hjá Hey Iceland. 
 
Rjúpan stygg í snjóleysi
Fréttir 26. nóvember 2024

Rjúpan stygg í snjóleysi

Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, segir rjúpnaveiðina fara vel af stað. Fugl...

Afleysing ekki fáanleg
Fréttir 26. nóvember 2024

Afleysing ekki fáanleg

Axel Páll Einarsson, kúabóndi á Syðri-Gróf í Flóahreppi, þurfti að fara í aðgerð...

Tók við dýraleifum af öllu höfuð­borgarsvæðinu og Suðurlandi
Fréttir 26. nóvember 2024

Tók við dýraleifum af öllu höfuð­borgarsvæðinu og Suðurlandi

Kjötmjölsverksmiðjan Orkugerðin í Flóanum náði að taka við öllum sláturúrgangi o...

Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar
Fréttir 26. nóvember 2024

Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar

Framkvæmdanefnd búvörusamninga leggur til við matvælaráðherra að heildargreiðslu...

Bleik slær Íslandsmet
Fréttir 25. nóvember 2024

Bleik slær Íslandsmet

Kýrin Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd hefur mjólkað mest allra íslensk...

Kjötmjöl og kúamykja betri áburðargjafi á eldri tún
Fréttir 25. nóvember 2024

Kjötmjöl og kúamykja betri áburðargjafi á eldri tún

Bræðurnir Ísak og Logi Jökulssynir á Ósabakka á Skeiðum gerðu áburðartilraunir þ...

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...