Hugað að nýrri afurðastöð
Sláturfélag Suðurlands (SS) undirbýr nú uppbyggingu á nýrri afurðastöð fyrirtækisins á lóð sinni á Fossnesi á Selfossi.
„SS hefur af skynsemi keypt stórar lóðir við stöðina á Fossnesi og sameinað þær allar í eina iðnaðarlóð sem er 9,8 ha að stærð. Til umráða er því mjög stór lóð sem hefur allt það sem ný starfsstöð þarf á að halda,“ segir í Fréttabréfi SS.
Fallið hefur verið frá því að endurbyggja stórgripasláturhús við núverandi húsakost þar sem það var talið óhagkvæmt. „Fjármunum félagsins er betur varið í byggingu nýrrar stöðvar frá grunni sem gefur mikla hagræðingarmöguleika með sameiginlegum deildum fyrir innmat og gorklefa. Fullri nýtingu á öllum afurðum sem má hirða,“ segir jafnframt í fréttabréfinu.
Í nýrri stöð er meðal annars reiknað með sameiginlegri búvöruverslun og slátraraverslun þar sem bændur og neytendur geti keypt kjöt sem er almennt ekki til sölu í verslunum. „Svo sem læri og hryggi af bestu dilkaskrokkunum. [...] En þess verður að gæta að sem minnst skörun verði við sölu á kjöti sem bændur selja úr heimtöku.“
Ítarleg þarfagreining og hönnun fer nú fram á verkinu en fram kemur í fréttabréfinu að um fimm til sex ár munu líða þar til uppbyggingunni lýkur. Deildarfundir SS fara fram þessa dagana en aðalfundur samvinnufélagsins fer fram þann 15. mars nk.