Hundrað ný störf í Hornafirði
Bláa lónið hefur fest kaup á jörðinni Hoffell 2 í Hornafirði og hyggst byggja þar upp baðstað og hótel.
„Ég gæti trúað að þetta yrðu um hundrað störf í upphafi og svo veit maður ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
Þetta er allavega frábært verkefni, sem á eftir að verða mjög mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið og allt nærumhverfið,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar, aðspurður um fyrirhugaða uppbyggingu Bláa lónsins við Hoffell í Hornafirði.
Ætlunin er að byggja þar upp glæsilegan baðstað, veitingastað og fjölbreytta gistingu rétt við jökullónið. Hoffellsjökull er nyrstur þeirra jökla, sem ganga úr Breiðabungu á Vatnajökli, en hann er um tíu kílómetra langur.
Fulltrúar Bláa lónsins héldu nýlega fund með íbúum í Hornafirði til að kynna áform sín og var augljóst að heimamenn eru mjög spenntir fyrir verkefninu að sögn bæjarstjórans. „Þetta verður einstakt á heimsvísu, því get ég lofað miðað við það sem ég hef séð. Framtíðin er björt í Hornafirði,“ bætir Sigurjón kampakátur við.
Í Hoffelli er jarðhiti sem RARIK á áfram og nýtir til að kynda Hornafjörð.