Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttir 1. mars 2018
Hundrað veitingastaðir í Japan bjóða íslenskt lambakjöt
Tugir þúsunda gesta heimsækja árlega matvælasýninguna Food Table sem haldin er í febrúar á hverju ári í Tókýó í Japan. Veitingamenn og smásalar sjá þar það helsta sem er á boðstólum í matvörum fyrir Japansmarkað.
Íslenskt lamba- og hrossakjöt var kynnt á sýningunni í ár við góðar undirtektir. Þetta er í annað skipti sem japanskir kaupendur fá að smakka á íslensku afurðunum á sýningunni. Í ár voru að auki kynntar nokkrar nýjar afurðir frá litlum íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum, eins og beinasoð og niðursoðið lambakjöt.
Kokkurinn Friðrik Sigurðsson á spjalli við japanskan gest á sýningunni.
Samstarf við japanskan sérvöruinnflytjanda
Þátttakan í sýningunni er samstarfsverkefni kjötútflytjenda, hrossabænda og Icelandic lamb í samvinnu við japanska fyrirtækið Global Vision, sem flytur inn ýmsar sérvörur til Japans frá Evrópu og Norður-Ameríku. Fyrirtækið selur til veitingastaða, svæðisbundinna dreifingaraðila og sérverslana. Íslenskt lamba- og hrossakjöt er það nýjasta í vörulínu japanska fyrirtækisins, sem hefur lagt töluvert undir við markaðssetningu á íslensku vörunum. Nú þegar er íslenskt lambakjöt komið á matseðla um 100 veitingastaða og fæst auk þess í nokkrum völdum verslunum. Salan undir hatti þessa verkefnis nam um 200 tonnum í fyrra.
Vöruþróun vegna sérstakra japanskra rétta
Sölunni á íslenska lambakjötinu má einkum skipta í tvo meginhluta. Annars vegar eru fluttir út dýrari bitar á góðu verði sem fara til alls kyns veitingastaða og sérverslana. Hins vegar eru fluttir út feitir frampartar sem fara á veitingastaði sem sérhæfa sig í svokölluðu mongólsku grilli, eða Ghengis Khan. Þá er einnig farið af stað vöruþróunarverkefni á sérstökum lambakjötsrúllum úr íslensku lambakjöti sem nýttar eru í rétti sem heita Shabu Shabu. Í báðum tilfellum elda viðskiptavinir kjötið sjálfir við borðið og íslenskt lambakjöt þykir hafa sérstaka eiginleika sem nýtast vel á þessari tegund veitingastaða.
Framlag utanríkisþjónustunnar er ómetanlegt
Icelandic lamb og Global Vision gerðu með sér samstarfssamning í fyrra sem gerir ráð fyrir stigvaxandi markaðshlutdeild íslenska lambakjötsins. Í honum felst einnig að allt markaðsefni Icelandic lamb er þýtt á japönsku, sett hefur verið upp japönsk heimasíða og samvinna er um gerð markaðsefnis fyrir netið.
Hið opinbera hefur lagt verkefninu lið og að sögn Svavar Halldórssonar, framkvæmdastjóra Icelandic lamb, hefur stuðningur utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins í Japan verið ómetanlegur við að koma því af stað. Stuðningurinn felst meðal annars í því að haldin er móttaka í sendiráðinu fyrir fjölmiðlamenn, áhrifafólk úr veitinga- og smásölugeiranum og fulltrúa íslenskra fyrirtækja í Japan. Þá hefur Friðrik Sigurðsson, matreiðslumaður utanríkisráðuneytisins, einnig heillað Japani með útfærslum sínum á íslenskum afurðum.
Möguleikar fyrir íslenska ull og hönnun
Þótt megináhersla sé á matvörur á Food Table-sýningunni eru einnig kynnt þar alls kyns tæki, húsgögn og fleira fyrir hótel og veitingastaði. Japanir eru þekktir fyrir áherslu á hönnun og í ár voru stigin fyrstu skrefin til að kynna íslenska hönnun og ullarvörur fyrir Japönum.
Stólar frá hönnunarfyrirtækinu Spot Design, sem voru til sýnis í íslenska básnum, vöktu mikla athygli. Áklæði þeirra eru handgerð úr íslenskri ull og aðeins búið til eitt eintak af hverjum stól. Sýnishornin sem voru á íslenska básnum voru seld á staðnum.
Að sögn Svavars Halldórssonar bendir ekkert til annars en framhald verði á þátttöku Íslendinga í sýningunni á næsta ári. Þótt svona markaðssetning sé vissulega langhlaup hafi árangurinn af verkefninu hingað til verið afar góður, allir aðilar séu í þessu af fullri alvöru og líkur á áframhaldandi góðum árangri á næstu árum.