Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Anna Sigurbjörg Sævarsdóttir (t.v.) og Lovísa R. Bjarnadóttir (t.h.), bændur á Suðausturlandi, eru í hópi fólks sem myndar Sláturfélag Austur-Skaftafellssýslu og hefur skoðað að setja upp lítið þjónustusláturhús.
Anna Sigurbjörg Sævarsdóttir (t.v.) og Lovísa R. Bjarnadóttir (t.h.), bændur á Suðausturlandi, eru í hópi fólks sem myndar Sláturfélag Austur-Skaftafellssýslu og hefur skoðað að setja upp lítið þjónustusláturhús.
Mynd / Aðsend
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fyrir lokun Sláturfélags Vopnfirðinga og hyggst sjálfur sækja um leyfi til að reka lítið sláturhús og kjötvinnslu.

Eins og Bændablaðið greindi frá fyrir skemmstu mun Sláturfélag Vopnfirðinga hætta rekstri og þar með verður síðasta sláturhúsinu á Austurlandi lokað.

Skúli Þórðarson, sauðfjárbóndi á Refsstað í Vopnafirði, hefur verið framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnfirðinga síðastliðinn áratug og á raunar sögu með félaginu allt aftur til ársins 1989. Hann er ekki af baki dottinn þó að Sláturfélag Vopnfirðinga líði nú undir lok og sláturhúsinu verði lokað, enda hefur hann sitt sauðfjárbú að sinna um. Hann er jafnframt með áform um að stofna lítið sláturhús og kjötvinnslu á Refsstað.

Skúli Þórðarson.
Sláturhús og kjötvinnsla

„Það sem tekur við hjá mér er sú vinna sem felst í að reka 400 kinda sauðfjárbú ásamt slatta af hrossum,“ útskýrir Skúli og heldur áfram: „Ég hef einnig hug á að finna mér önnur verkefni með þeim rekstri. Ég ætla að sækja um leyfi til að reka lítið sláturhús og litla kjötvinnslu (skv. reglugerð nr. 856/2016). Ef ég fæ leyfið geri ég ráð fyrir að slátra um 500–600 dilkum úr Vopnafirði í haust og er það hugsað að mestu leyti á heimamarkað,“ segir hann.

Skúli segir markmiðið að auka síðan sölu á breiðari markaði og þannig auka slátrunina jafnt og þétt næstu árin. „Ég hef hugsað mér að breyta gömlu fjósi sem ekki hefur verið notað síðustu fimm árin og er byrjaður að hreinsa innan úr því og hanna sláturrýmið,“ bætir hann við.

Geldur varhug við samþjöppun

Sláturhús var um árabil á Höfn í Hornafirði en var lokað í sumarbyrjun árið 2019 í kjölfar þess að Norðlenska rifti leigusamningi við Sláturfélagið Búa á Höfn, eiganda um 70% hlutar í sláturhúsinu. Var það á grundvelli þess að slátrun á Höfn hefði verið um 50% dýrari en slátrun í sláturhúsi félagsins á Húsavík.

Eiríkur Egilsson.

Eiríkur Egilsson, bóndi á Seljavöllum í Nesjum og fyrrverandi stjórnarformaður Sláturfélagsins Búa svf. á Höfn, segist ekki hafa trú á að slit Sláturfélags Vopnfirðinga ýti undir að opnað verði sláturhús að nýju á Höfn. Sláturhúsið sem var þar hafi verið selt og því breytt undir aðra starfsemi.

„Það er skoðun mín að það hafi verið afskaplega slæmt að sláturhúsinu á Höfn skyldi vera lokað, sérstaklega með tilliti til langra flutningsleiða og dýravelferðar. Mér finnst persónulega ekki af hinu góða ef það á að verða meiri samþjöppun í sláturhúsarekstri og tel rétt að núverandi sláturleyfishafar keppi um viðskipti við bændur,“ segir Eiríkur.

Sláturfélagið Búi svf. var afskráð árið 2021.

Spyrnt við fótum

Áhugi hefur verið á að setja upp lítið sláturhús á Hornafjarðarsvæðinu. Þær Lovísa R. Bjarnadóttur og Anna Sigurbjörg Sævarsdóttir, bændur á Suðausturlandi, segja að Sláturfélag Austur-Skaftafellssýslu hafi orðið til í kjölfar þess að sláturhúsinu á Höfn var lokað.

„Þetta er hópur fólks með þá sameiginlegu sýn að setja upp lítið þjónustusláturhús,“ segja þær. „Við vildum geta þjónustað bændur betur að því leyti að auka sláturtíðni: að oftar væri hægt að bjóða ferskt kjöt. Slátrað yrði lítið í einu til að draga úr streitu og aðbúnaður sláturdýra yrði betri fyrir vikið. Bein sala til heimamanna yrði möguleiki, bæði einstaklinga og fyrirtækja. Við vildum leggja áherslu á að slátra nautum, geitum, svínum, sauðfé og hrossum,“ segja þær.

Gert hafi verið tilboð í að taka niður búnað og innréttingar úr sláturhúsinu á Höfn sem var að loka gegn því að eignast munina. Það hafi gengið eftir. „Við sóttum um lóð undir sláturhús til sveitarfélagsins og tók sú afgreiðsla langan tíma en fór á endanum í gegn,“ segja þær enn fremur.

Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð í styrkumsóknaferli hjá ýmsum sjóðum hafi ekki fengist neitt fjármagn í verkefnið. „Þó svo að okkar leið í slátrun; nærgætni, smæð, handverk og dýravelferð væru okkar „nýsköpun“, þá var varan sem kom út úr sláturhúsinu samt áfram kjöt – sem var þá ekki ný vara,“ segja þær. Þær telja leiðbeiningar og ráðgjöf vanta þegar sótt sé um fjármagn í sjóði. Þá hafi verið farið í samtal við handverkssláturhúsið á Seglbúðum um samstarf en vegna aðstæðna var fyrir nokkru síðan ákveðið að loka sláturhúsinu þar.

Hugmyndin í biðstöðu

„Núna er staðan þannig að frá Höfn eru næstu sauðfjársláturhús í 400 km fjarlægð eða meira eftir að lokaði á Vopnafirði: Húsavík eða Selfoss. Það voru ekki síst þessar miklu vegalengdir sem sláturdýrin þurfa að fara sem varð til þess að hugmyndin fór af stað. Uppbygging sláturhúss á Höfn er því í biðstöðu vegna erfiðs aðgengis að fjármagni og óhagstæðra lánakjara.

Hækkuð gjöld matvælaráðuneytisins á lítil sláturhús snertir okkur beint og er íþyngjandi þannig að viðskiptaáætlun okkar breyttist gríðarlega með því útspili á síðasta ári,“ segja Lovísa og Anna.

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...