Eftirmál riðuveiki: Breyttu gömlu fjárhúsunum í gróðurhús
Stóru-Akrar 1 eru í Blönduhlíð í Skagafirði og þar kom upp riða haustið 2020. Það var í fyrsta sinn í langan tíma sem hún greindist og var staðfest á þessu svæði. Þar búa Svanhildur Pálsdóttir og Gunnar Sigurðsson með kýr og voru áður með um 520 kindur. Þau ákváðu strax að þau munu taka aftur fé haustið 2024 og eru að breyta gömlu fjárhúsunum í gróðurhús með ávaxtatrjáaræktun.
Blaðamaður settist niður með þeim í eldhúsinu á Stóru-Ökrum og þau rifjuðu upp þann tíma þegar riðutilfelli voru staðfest í þeirra hjörð og eftirmál þess. „Ef við byrjum á því að ræða fyrst þessi bótamál, þessar reglur sem gilda um ferlið af hálfu ríkisins, þá er staðreyndin sú að þetta eru mjög gamlar reglugerðir sem endurspegla gamla tíma. Þær eru settar við þær aðstæður að það er offramleiðsla á lambakjöti og þetta þótti bara frekar þægileg leið til að fækka sauðfé í landinu. Borga bændum bara þokkalega fyrir, þannig að þeir kæmu ekkert aftur inn í greinina,“ segir Gunnar.
Getur ekki byrjað á sama stað
„Eins og ljóst má vera af nýlegum málum, til dæmis í Miðfirði, þá er staðreyndin sú að maður getur ekki byrjað á sama stað og maður var á þegar niðurskurðurinn varð. Þú þarft alltaf að borga dálítið mikið með þér,“ segir Gunnar og er mikið niðri fyrir. „Nú heyri ég líka talað um að að það sé eðlilegt að teknir séu inn ARR-gripir – og það verður hér hjá okkur – en þeir verða mun dýrari í verði en aðrir gripir. Þegar ekki er farið heildstætt í endurskoðun á reglugerðinni þá endar allt saman uppi á einhverju flæðiskeri. Reyndar var ráðin manneskja til verksins, sem þótti færust til þess, um það leyti sem skorið var niður hér hjá okkur, en það hefur ekki bólað á þessum breytingum enn þá. Það voru reyndar hugmyndir um allt sem lýtur að riðuvörnum skilst mér og reyndar hefur aðeins upp á síðkastið farið að örla á þeim breytingum. Bótahlutinn er hins vegar enn alveg óbreyttur og ekkert hefur frést af breytingum á honum.Við enduðum á því að semja af okkur enda var ekkert annað í stöðunni,“ segir hann.
Ómakleg gagnrýni
Gunnari finnst að gagnrýnin beinist oft ómaklega að fólkinu sem er falið að fylgja regluverkinu eftir. „Við gagnrýnum oft atriði sem okkur finnst ekki vera í lagi í þessum málum, en gjarnan beinist gagnrýnin ekki að réttum aðila. Í þessum niðurskurðarmálum ætti gagnrýnin að beinast að sökudólginum sem í þessu tilviki er sjálft regluverkið. Ef við lesum reglurnar þá er það alveg augljóst að þær ganga ekki upp. Ef við tökum dæmi af manneskju í fyrirtækjarekstri sem er gert að hætta starfsemi af stjórnvöldum og fær ekki fullar bætur fyrir, verður sá hinn sami aldrei sáttur. Við eigum að beina kröftum okkar að þessu óréttlæti, en ekki að fólkinu sem vinnur að því að framfylgja þessum reglugerðum.“
Magrar þriggja vetra ær
Riðutilfellin á Stóru-Ökrum uppgötvaðist þegar Gunnar verður var við það í fyrstu göngum um haustið að allnokkrar þriggja vetra ær eru óeðlilegar magrar. „Ég fékk því nágranna minn til að lóga þeim fimm beint úr réttinni og setja á hræbílinn. Vel að merkja voru lömbin undir þeim alveg drekalömb, en þær virtust hafa horast niður á mjög skömmum tíma. Það var svo ekki fyrr en mánuði síðar þegar aftur var komið að smalamennsku sem ég geng fram á kind sem er greinilega veik. Hún er þá bæði glithoruð fyrir það fyrsta, en með alveg rígvæn lömb með sér.
Það tók mig svolitla stund að átta mig á því að þetta gæti verið riða af því að þessi einkenni höfðu aldrei verið mikið í umræðunni fannst mér, þessi skyndilega og mikla aflögn. Áherslan hafði mest verið á þessi taugaeinkenni; að þær væru hræddar, í ójafnvægi og gangurinn órásvís – en þessi einkenni birtust ekki í neinum af þessum kindum. Ég var kannski ekki alveg nógu fljótur að kveikja á perunni, en svo lét ég taka sýni úr þessari sem ég fann í göngum og þá var riðutilfellið staðfest. Þetta var mjög mikið áfall fyrir okkur og auðvitað börnin okkar líka,“ segir Gunnar, en á Stóru-Ökrum voru 520 fjár þegar skorið var.
Bændur hættu að tala saman
„Það var skorið niður hér vegna mæðuveiki 1949, minnir mig,“ rifjar Gunnar upp þegar hann er spurður um sögu riðuveiki á bænum. „Fram að þeim tíma var riða hér á svæðinu öllu eins og annars staðar, en auðvitað áður en opinberar niðurskurðaraðgerðir hófust. Ég man eftir því að afi minn, sem þá var ábúandi hér, sagðist hafa bara sjálfur hreinsað út út hjörðinni þær ættarlínur sem virtust vera viðkvæmari fyrir riðunni. Hann hafði sjálfur ekki orðið var við riðu í mörg ár hér þegar kom að þessum niðurskurði vegna mæðuveikinnar og ekkert síðan, hvorki hér né á nágrannabæjum. Áfallið hjá mér var fyrst og fremst samfélagslegt, því við vorum á hreinu svæði þar sem hægt var að eiga í viðskiptum með gripi, samgangur var opinn, það voru hrútasýningar og heilmikill félagsskapur í kringum sauðféð. Nú skall allt í lás og ég sá fyrir mér að þetta yrði mikið áfall – sem auðvitað kom á daginn. Ég upplifði þetta þannig að við bændur hættum bara að tala saman.“
„Það urðu allir hræddir sem eðlilegt var,“ skýtur Svanhildur inn í sem situr með prjónana. „Við höfðum selt hrúta og ær frá okkur sem var auðvitað mjög erfitt þegar farið var að rekja féð alveg fimm ár aftur tímann.“
Riða greind úr fé frá Stóru-Ökrum
„Á þessum bæjum var allt tekið út og öllu slátrað sem rekja mátti hingað,“ segir Gunnar. „Það skipti tugum féð sem hafði farið frá okkur á þessum tíma og stundum hafði það áhrif út fyrir okkar fé, ég get ímyndað mér að þetta hafi haft áhrif á hundruð fjár sem var lógað. Hjá sumum kom aldrei fram riða, en á þremur bæjum var hún greind úr fé frá okkur. Þetta er enn opið sár hjá okkur og erfitt að sætta sig við.“
Gunnar segist strax hafa farið að spá meira í arfgerðir þegar hugað var að því að taka fé aftur.
„Já, ég fór strax árið eftir til vina minna vestur á Heydalsá á Ströndum og samdi við þau um að arfgerðagreina allt féð og kaupa svo í kjölfarið af þeim – sem við höfum þegar gert, þó við tökum það ekki hingað fyrr en á næsta ári. Við tókum ákvörðun um það strax að taka aftur fé, en ákváðum líka að vera fjárlaus í fjóra vetur. Okkur fannst það bara vera hæfilegur tími að láta líða frá niðurskurðinum. Við munum fyrstu fimm til tíu árin fyrst og fremst einbeita okkur að arfgerðum – og síðan öðrum kynbótum.“
Kúabóndi með brennandi áhuga á sauðfjárrækt
Gunnar er þriðju kynslóðar ábúandi á Stóru-Ökrum, þar sem kúabúskapur er rekinn auk sauðfjárræktar.
„Ég hef alltaf lagt aðaláherslu á mjólkurframleiðsluna. Ég væri ekki hér talandi við þig ef við værum ekki með mjólkurframleiðslu. Af þeim bótagreiðslum sem ég þigg fyrir niðurskurðinn borga ég 45 prósent til baka í sköttum. En ég hafði líka brennandi áhuga á sauðfjárrækt, en ekki rekstrarlega. Við gátum stillt sauðfjárræktinni dálítið upp eftir okkar heyfeng hverju sinni. Settum kannski meira á þegar við áttum mikil hey, þannig að hjá okkur hafa verið svona ákveðin samlegðaráhrif.“
Svanhildur starfar við Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi og kunn fyrir áhuga sinn á íslenskri ull. Hún hefur alltaf starfað utan bús, átti um tíma og rak Hótel Varmahlíð til að mynda. „Ég hef verið alveg á hliðarlínunni í búskapnum en reynt að taka virkan þátt á álagstímum. Eftir niðurskurðinn hef ég þó stundum hugsað til þess hvað það hefði verið gaman að eiga sitt eigið prjónaband úr ullinni af fénu sem við misstum, þar sem nú er hægt að láta vinna fyrir sig úr eigin ull í þeim smáspunaverksmiðjum sem eru komnar á fullt.“
Fjárhús verða að gróðurhúsi
Svanhildur segir að niðurskurðurinn hafi snert þau mjög djúpt og börnin þeirra líka. „Við settumst niður, fjölskyldan, tveimur dögum eftir niðurskurðinn, og ræddum þetta allt saman. Veltum fyrir okkur hvað tæki nú við og hvað svo. Þá kom upp sú hugmynd að breyta fjárhúsunum í gróðurhús og það má segja að núna sé það í raun að gerast því við erum að planta inn í húsið fyrstu berja- og ávaxtaplöntunum. Fjárhúsin eru sem sé að breytast í ávaxtahús. Þessi hugmynd hafði strax mjög góð áhrif á okkur – það að við ákváðum að við ætluðum að prófa að rækta eitthvað nýtt og skemmtilegt í þessu húsi varð spennandi áskorun. Við höfum líka rætt ýmislegt annað, eins og að fara að rækta hafra til manneldis eða eitthvað slíkt. Dóttir okkar var einmitt að útskrifast úr Listaháskólanum og lokaverkefni hennar gekk út á hvernig við getum aukið matvælaframleiðslu á Íslandi og gert hana fjölbreyttari og það er einmitt það sem við höfum áhuga á að reyna hérna í gömlu fjárhúsunum okkar.“