Margir flottir sjóbirtingar í sumar
Höfundur: Gunnar Bender
,,Já, þetta var gaman en fiskinn veiddi ég í Brúarhylnum og hann tók rauða franes,“ sagði Birgir Örn Pálmason, sem á heiðurinn af einum af fyrstu sjóbirtingunum í sumar í Leirvogsá þetta sumarið og fiskurinn var flottur.
,,Þetta var skemmtilegur fiskur og gaman af þessu,“ sagði Birgir Örn, veiðimaðurinn klóki, sem hefur veitt víða í sumar og núna síðast í Norðurá í Borgarfirði.
Það hafa veiðst margir vænir sjóbirtingar í sumar eins og í Ytri Rangá, Eystri Rangá og Hólsá fyrir austan. Í Laxá í Kjós hafa veiðst flottir birtingar og þessa dagana er þetta að byrja fyrir austan. Sjóbirtingurinn er að byrja að gefa sig, hans tími er að byrja þessa dagana.
,,Við vorum í Vatnamótunum um daginn og það gekk ágætlega,“ sagði Selma Björk Isabella Gunnarsdóttir, sem var stödd á sjóbirtingsslóð um daginn og það var veiði, en tími sjóbirtingsins er að byrja á fullu þessa dagana. Spáð er góðri veiði, þveröfugt við laxveiðina.