Styttist í enda veiðitímabilsins
Höfundur: Gunnar Bender
„Já, ég er búinn að fá nokkra laxa og silunga líka, þetta hefur verið gott sumar, veiðin er svo hrikalega skemmtileg alltaf,“ sagði Jógvan Hansen er við hittum hann fyrir skömmu á harðahlaupum, stutt í næstu skemmtun hjá kallinum.
„Veiðin er að verða búin, svo fer maður á rjúpu um leið og það má,“ sagði Jógvan enn fremur.
Laxveiðin er að skýrast verulega þessa dagana, Eystri- og Ytri-Rangá tróna á toppnum þetta árið, síðan kemur Þverá í Borgarfirði.
„Já, veiðin gekk feiknavel hjá okkur í sumar,“ sagði Aðalsteinn Pétursson, en hann hefur verið að leiðsegja við ána stóran hluta sumars. Síðan koma Miðfjarðará og Norðurá í Borgarfirði.
Laxinn kom snemma eins og fyrir ári síðan, en smálaxinn klikkaði fyrir norðan. Svona er þetta bara, allt getur gerst, en heildarveiðin yfir landið er í lagi á flestum stöðum. Veitt er fram í október í Ytri- og Eystri-Rangá og sjóbirtingurinn er að byrja á fullu.