Verulega fallegt við Fögruhlíðarós
Höfundur: Gunnar Bender
Fögruhlíðará, eða Fögruhlíðarós, er austast í Jökulsárhlíð og tilheyrir Ketilsstöðum. Þarna er mjög fagurt umhverfi og vegslóði liggur að ánni frá þjóðveginum.
Erlendir veiðimenn sem voru þarna fyrir nokkrum árum sögðu að þetta væri eins og á tunglinu, fegurðin er stórskostleg.
„Ég var að leiðsegja fjórum veiðimönnum í Fögruhlíðará um daginn og við lentum heldur betur í bingói!“ sagði Árni Kristinn Skúlason, sem finnst fátt skemmtilegra en að veiða silung.
„Dagurinn byrjaði rólega og var smá kropp en síðan allt í einu fór bleikjan að taka grimmt og náðum við 22 bleikjum á land ásamt 2 sjóbirtingum. Allt spikfeitir og fallegir fiskar. Fiskurinn leit ekki við öðru en þyngdri Heimsætu og tókum við alla á hana. Allir fiskarnir fengust í ósnum,“ sagði Árni Kristinn enn fremur.