Indverskir traktorar og landbúnaðartæki til Íslands
Höfundur: as
Indversku Solis traktorarnir hefja brátt innreið sína á Íslandi. Líklegt má telja að sumir láti segja sér tvisvar verðið á Solis. Það er nefnilega mikið lægra en menn hafa átt að venjast.
Ástæðan fyrir lágu verði er fyrst og fremst einfaldleikinn. Í þessum vélum er ekkert flókið tölvukerfi svo dæmi sé tekið. Indverski framleiðandinn leggur mikið upp úr því að bændur geti gert sjálfir við vélarnar. Aftur er ástæðan einföld. Indland er annað fjölmennasta land jarðarinnar og það sjöunda stærsta að flatarmáli. Varahlutaverslanir eru ekki á hverju strái og Solis traktorinn er oft eina farartækið sem bændurnir eiga – og það má ekki klikka. Á þessum staðreyndum hvílir hönnun vélanna.
Solis er í boði í flestum löndum Evrópu og Asíu og nú nýlega var fyrsta umboðið opnað á Miami í Flórída. Fyrsta landið til að selja Solis í Evrópu var Portúgal en flestar vélar hafa verið seldar í Hollandi það sem af er. Þar hafa mest seldu vélarnar verið „narrow“ eða mjóar vélar sem henta einstaklega vel á vínekrur og í gróðurhús.
Sáu Solis í Bændablaðinu!
„Upphafið var það að við sáum grein í Bændablaðinu um Solis traktora sem voru á sýningu í Hanover í Þýskalandi í nóvember 2015. Við höfðum samband við sendiráð Indlands í Reykjavík sem hjálpaði okkur að koma á viðskiptasambandi. Nú erum við búnir að fara til Indlands, skoða verksmiðjuna og skrifa undir samninga,“ sagði Jón Valur Jónsson, annar tveggja eigenda fyrirtækisins Vallarnauts í Rangárþingi. Jón Valur er menntaður húsasmíðameistari og arkitekt. Meðeigandi Jóns Vals er Ingvar Sigurðsson viðskiptafræðingur. Vallarnaut stofnuðu þeir félagar þegar þeir hófu fyrir þremur árum ræktun á Galloway holdanautum á Velli I. Búið er í um 5 km fjarlægð frá Hvolsvelli.
Nú eru þeir Jón Valur og Ingvar í óða önn að skipuleggja þjónustuna. Á Suðurlandi mun Baldur Sigurðsson, sem rekur fyrirtækið Bílvelli á Hvolsvöllum, annast sölu, þjónustu og viðgerðir. Verið er að ræða við fleiri fyrirtæki víðar um land. Það liggur svolítið á því fyrstu traktorarnir koma eftir nokkrar vikur. Um leið koma ýmis jarðvinnslutæki eins og vendiplógar, tætarar og diskaherfi. „Úrvalið er mikið og ætlum við að byrja á þessum fylgihlutum,“ sagði Ingvar.
Ingvar og Jón Valur segja að það væri ekki á færi allra að fjárfesta í nýrri dráttarvél. Peningaskortur hefði svo leitt til þess að menn hafi neyðst til að fjárfesta í notaðri vél sem þyrfti að lagfæra. „Með tilkomu Solis hefur hins vegar myndast raunhæfur möguleiki á að eignast nýja vél á svipuðu verði og 10–20 ára gömul notuð vél kostar,“ sagði Ingvar.
Hagstætt verð
Þeir félagar sögðu að þeir gætu boðið traktora á verði sem ekki hefði sést fyrr.
„Fyrst og fremst er ástæða lágs verðs sú að vélarnar eru mjög einfaldar, tæknilega séð. Við höfum heyrt bændur tala um að vélar séu orðar svo flóknar að oftast þurfi að fá utanaðkomandi aðila til að gera við. Engin tölva er í þessum vélum og bóndinn á í flestum tilfellum að geta gert við vélina sína sjálfur. Við munum bjóða upp á sérlega gott kynningarverð, á fyrstu sendingunni bjóðum við t.d. 90 hestafla 4x4 Solis með CRDI vél á 3.990.000 án vsk. en það er sambærilegt við verðið í Englandi og Írlandi. Ódýrasta vélin sem við bjóðum upp á er 20hp Solis með Mitsubishi mótor á 1.330.000 án vsk. Ég bendi á heimasíðuna okkar – solis.is – til að sjá aðra verðflokka og nánari upplýsingar,“ sagði Jón Valur.
Þegar þeir Ingvar, Jón Valur og Baldur fóru til Indlands fyrir skömmu fengu þeir ekki síðri viðtökur en ef þjóðhöfðingjar hefðu átt í hlut. Það var ljóst að ráðamenn indverska fyrirtækisins lögðu mikið upp úr því að komast í samband við fyrirtæki í Evrópu.
Að sögn sendiherra Indlands á Íslandi breyttist margt með nýjum forsætisráðherra sem lét meðal annars gera miklar breytingar á útflutningskerfinu. Markmiðið var að gera það opnara, gagnsærra og losna við spillingu. Stjórnvöld lögðu mikla áherslu á að aðstoða indversk fyrirtæki við að komast á erlenda markaði.
Indverjarnir sögðu þremenningunum að með því að selja Solis í Evrópu fengist ákveðinn gæðastimpill. Mestu kröfur til gæða eru gerðar í Evrópu og gangi allt upp leiðir það til aukinnar sölu á öðrum mörkuðum. Indverjarnir ætla sér greinilega að ná þessum markmiðum sínum því nú er í byggingu ný verksmiðja sem framleiðir 500 traktora á dag – hvorki meira né minna.
Umferðin í Indlandi kom þeim félögum spánskt fyrir sjónir. Þeir hófu ferðina í Nýju Delí og flugu svo til Amritzar en verksmiðjan er staðsett í Punjab-héraði sem er u.þ.b. í 3 tíma akstursfjarlægð. Við fyrstu sýn virtist umferðin þar á bæ vera hrein og klár geðveiki. Á tveggja akreina götum voru oftast 4–5 bílar hlið við hlið og svo mótorhjól á milli þeirra.
Á götunum er gríðarlegur flautukonsert. Allir flauta! En allt þetta flaut virðist vera til að láta aðra vita og bara til að segja „hæ“.
Í Nýju Delí voru umferðarljós en um leið og komið var út fyrir borgina hurfu þau en samt gekk umferðin að mestu snurðulaust fyrir sig. Aðein einu sinni sáu þeir félagar lítils háttar árekstur í þessari 33 milljóna borg.
Svo var það gestrisnin. Henni gleyma þeir Baldur, Jón Valur og Ingvar ekki á næstunni. Alls staðar var tekið á móti þeim með brosi, blómvöndum og miklum matarveislum. „Ég varð mjög hrifinn af Indlandi. Það svæði sem við fórum um er fallegt og fólkið elskulegt,“ sagði Ingvar og bætti við að hann hlakkaði til næstu Indlandsferðar.
Baldur prófar Solis 60. Það er lítil þörf á húsum á traktorana í indversku blíðunni. Hitinn var um 40 gráður þegar þeir félagar voru þarna á ferð.