Ingvi Stefánsson tekur við formennsku í Svínaræktarfélagi Íslands
Formannsskipti urðu í Svínaræktarfélagi Íslands í byrjun júní, en þá hætti Björgvin Jón Bjarnason, sem hefur rekið búið á Hýrumel í Borgarfirði, og Ingvi Stefánsson, Teigi í Eyjafirði, hefur tekið við.
Fóðurblandan keypti Hýrumel og afhenti Björgvin búið seinni hluta maímánaðar.
Björgvin segir að hann hafi reynt að selja bú sitt um nokkurt skeið. „Ég hef haft önnur verkefni með höndum sem þarf að gefa meiri tíma en þau hafa fengið. Þá tel ég líkur á að fyrirsjáanlegar breytingar í umhverfinu – sem felast í auknum innflutningi samhliða kröfum um miklar fjárfestingar – muni fækka svínabændum á næstu árum og eftir standi þeir sem annað hvort ráða yfir fleiri hlekkjum í virðiskeðjunni eða ná að skapa sér sérstöðu með öðrum hætti, svo sem fóðrun. Hvor leiðin sem hefði verið farin hefði krafist meiri breytinga í rekstri en ég var tilbúinn að ráðast í,“ segir Björgvin.
Viljum svara kalli markaðarins og framleiða meira
Ingvi gegndi formennsku í félaginu á árunum 2003 til 2009, en þá tók Hörður Harðarson í Laxárdal við. Hann segir margar áskoranir framundan fyrir íslenska svínabændur. „Þrátt fyrir talsverða óvissu sem er framundan á allra næstu árum eru forsendur til lengri tíma litið að innlend framleiðsla muni eflast. Innlend framleiðsla hefur verið að dragast saman á sama tíma og eftirspurn hefur aukist umtalsvert. Við viljum snúa þessari þróun við, það er sinna kalli markaðarins og framleiða meira. Ef okkur tekst að kynna betur okkar afurðir og fyrir hvað þær standa þá er ég sannfærður um að framtíðin verður björt fyrir okkar búgrein. En það er auðvitað mest undir okkur sjálfum komið að upplýsa neytendur og ekki síður stjórnmálamenn um mikilvægi íslenskrar svínaræktar og fyrir hvað við stöndum. Það er stóra verkefnið framundan,“ segir Ingvi.