Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Innflutningur á hráu kjöti er ógn við matvælaöryggi
Mynd / TB
Fréttir 22. nóvember 2016

Innflutningur á hráu kjöti er ógn við matvælaöryggi

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Mikilvægt að standa vörð um lýðheilsu segir formaður Bændasamtakanna

Í kjölfar dóms héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp fyrir helgi í máli Ferskra kjötvara ehf. gegn íslenska ríkinu, ítreka Bændasamtökin afstöðu sína að nauðsynlegt sé að viðhalda innflutningsbanni á hráu, ófrosnu kjöti.

Um árabil hafa bændur haldið fram rökum sem mæla gegn innflutningi á hráu kjöti af heilsufarsástæðum. Við innleiðingu matvælalöggjafar ESB var þetta bann fest í sessi. Ennfremur var krafa um bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti hluti af samningsafstöðu gagnvart ESB á sínum tíma og utanríkismálanefnd Alþingis áréttaði með því þessa afdráttarlausu afstöðu.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir að bændur hafi krafist þess að ekki verði gengið gegn ráðleggingum fremstu sérfræðinga sem hafa varað við innflutningi á hráu kjöti. „Bannið er nauðsynlegt til að verja íslenskan landbúnað, búfjárkyn, líffræðilegan fjölbreytileika, matvælaöryggi og lýðheilsu í landinu. Innflutningur á hráu kjöti er ekkert annað en ógn við matvælaöryggi okkar allra,“ segir Sindri.

Viðskiptahagsmunir teknir fram yfir vísindaleg rök

Bændasamtökin hafa lýst furðu sinni á því að ekki skuli vera hlustað á vísindaleg rök í þessu máli, að minnsta kosti ekki ef þau rekast á viðskiptahagsmuni. Forsvarsmenn heildsölu- og verslunarfyrirtækja hafa fagnað dómi héraðsdóms en það eru augljósir hagsmunir þeirra að flytja inn aukið magn af kjöti sem veitir þeim sterkari stöðu á kjötmarkaði.

Sindri segir að viðhorf bændahreyfingarinnar byggi á því mati sérfræðinga að innflutningur á hráu, ófrosnu kjöti auki líkur á því að smitefni geti borist hingað til lands sem er mikil ógn við bæði heilsu manna og dýra.

„Þær ströngu reglur sem hér gilda um varnir gegn sjúkdómum sem geta borist með matvælum, s.s. salmonellu- og kampýlóbaktersýkingar, eru nauðsynlegar til að vernda lýðheilsu. Innflutningur á hráu, ófrosnu kjöti ógnar þeim mikla árangri sem náðst hefur. Nágrannaþjóðir okkar eru um þessar mundir að berjast við alvarleg vandamál sem tengjast heilsufari búfjár. Nærtækasta dæmið er útbreiðsla fuglaflensu í Danmörku,“ segir Sindri.

Heilbrigðisstaða íslenskra búfjárkynja er mjög góð í samanburði við nágrannalönd okkar og einangrun íslensku búfjárkynjanna frá landnámi veldur því að mótefnastaða þeirra gegn ýmsum sjúkdómum er lág. Þá er notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði með því minnsta sem þekkist í heiminum. Takmörkun á notkun sýklalyfja í búfjárrækt er mikilvægt lýðheilsumál og leggja íslenskir bændur mikla áherslu á að lágmarka notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Evrópusambandið og Smitvarnamiðstöð Bandaríkjanna hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag. Þrátt fyrir það eru sýklalyf víða notuð sem vaxtarhvati í landbúnaði og fram eru komnar ofurbakteríur sem geta borist í menn og eru ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum sem eru á markaði í dag. Skemmst er að minnast forsíðugreinar tímaritsins Economist síðastliðið vor þar sem fram kom að 700 þúsund manns láti lífið í heiminum árlega vegna sýklalyfjaónæmra sýkinga.

Íslensk búfjárkyn eru einstök á heimsvísu og alþjóðlega viðurkennt að verndun þeirra er mikilvæg til að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika. Í íslensku búfjárkynjunum felst að auki einstakur menningararfur.

Ábyrgðarhluti að leggja til að frystiskyldan verði afnumin

Við innleiðingu á matvælalöggjöf Evrópusambandsins varð það niðurstaða Alþingis að binda í lög áframhaldandi bann við innflutningi á hráu kjöti og fleiri hráum dýraafurðum með lögum nr. 143/2009. Þessari afstöðu verður að viðhalda og það er ábyrgðarhluti að ætla sér að fella út kröfur um frystiskyldu á innfluttu kjöti. Hún minnkar líkur á að hingað til lands berist skæðir sjúkdómar og veitir viðbragðsaðilum tíma til að bregðast við sýkingum ef kjöt reynist ekki í lagi.

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...