Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Dönsk kýr af Jersey-kyninu.
Dönsk kýr af Jersey-kyninu.
Mynd / Wikimedia, Bart Laridon
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokkurra samtaka sem starfa á sviðum náttúruverndar, verslunar á landbúnaðarafurðum og vinnslu þeirra, um innleiðingu á kolefnisgjaldi á landbúnað.

Samkomulagið er hið fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu. Þar er gert ráð fyrir að bændur þurfi frá árinu 2030 að greiða 120 danskar krónur (um 2.400 íslenskar krónur) á hvert losað tonn af koltvísýringsígildi (CO2íg) sem hækkar svo í 300 danskar krónur (um sex þúsund íslenskar krónur) frá árinu 2035.

Þó að kolefnisgjaldið nái til allra búgreina í Danmörku, þá mun það koma harðast niður á nautgripabændum sem losa mest. Talið er að dæmigerð dönsk kýr losi að meðaltali rúmlega 6 tonn af CO2íg á einu ári, en tæplega ein og hálf milljón nautgripa er í Danmörku.

Möguleikar á að verða gjaldfríir

Fjármununum sem aflað er með gjaldtökunni verður veitt aftur inn í búgreinarnar til umhverfisvænna fjárfestinga og nýsköpunar, sem mun skapa störf og vega þannig upp á móti fækkun starfa sem talið er að verði óhjákvæmilega, hjá nautgripabændum í það minnsta.

Ráðgert er að taka málið til þinglegrar meðferðar þegar danska þingið kemur saman eftir sumarfrí.

Haft er eftir Sören Söndergaard, formanni dönsku heildarsamtaka landbúnaðarins (Landbrug & Fødevarer) á vef samtakanna af þessu tilefni að það mikilvægasta með innleiðingu þessa gjaldfyrirkomulags hafi verið að takast að útfæra það þannig að bændum, sem stunda sinn búskap með viðurkenndum og hagrænum sjálfbærum loftslagslausnum, sé gefinn kostur á að verða algjörlega fríir frá kolefnisgjaldtöku.

Áætla milljarða tekna í ríkissjóð

Nú er spurningin hvort danskra áhrifa muni gæta í öðrum Evrópulöndum í nánustu framtíð – og einnig hér á Íslandi.

Áform voru uppi hjá íslenskum stjórnvöldum á síðasta ári um að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, meðal annars um hækkun á kolefnisgjaldi sem nemur um það bil fimm krónum á lítrann (mismunandi eftir kolefnisinnihaldi eldsneytistegunda). Gert var ráð fyrir að tekjur í ríkissjóð myndu aukast um 3,1 milljarð króna.

Í markmiðum áformanna um lagasetningu var einnig tiltekið að til skoðunar væri að útvíkka gildissvið kolefnisgjaldsins, þótt ekki sé frekar útskýrt í hvaða átt það yrði.

Stuðningur við metnaðarfull markmið

Í áformunum, sem voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í janúar á þessu ári, kom fram að tilgangur kolefnisgjalds væri að ná utan um neikvæð ytri áhrif af losun svo að verð endurspegli raunkostnað losunar gróðurhúsalofttegunda. 

Markmið breytinganna væri að styðja við metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum og auka tekjuöflun ríkissjóðs í ljósi samdráttar á tekjum af skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Hækkun kolefnisgjalds væri skilvirk leið til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Fyrirhugað var að leggja málið fram á liðnu vorþingi, en það tókst ekki.

Enginn annar valkostur

Bændasamtök Íslands lögðust gegn málinu í samráðsferlinu og sögðu að um óásættanlegan landsbyggðarskatt væri að ræða.

„Slík skattlagning sem áform þessi ná til er til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á landbúnað enda stærstur hluti vinnuvéla og farartækja í landbúnaði knúinn af dísilolíu.

Þá er enn sem komið er, í flestum tilfellum, ekki um annan valkost að ræða sem staðgengil fyrir notkun jarðefnaeldsneytis. Því mun slík skattlagning ekki hafa í för með sér minni notkun jarðefnaeldsneytis heldur aðeins auka kostnað við framleiðslu innlendra landbúnaðarafurða.

Einnig mun hækkun gjaldsins koma sérstaklega illa við flutning á vörum og aðföngum til hinna dreifðari byggða, með tilheyrandi kostnaðarauka. Enda gildir það sama þar að enn sem komið er eru ekki í boði raunhæfir valkostir fyrir þessar flutningsleiðir sem nýta aðra orkugjafa,“ sagði í umsögn samtakanna.

Skylt efni: kolefnisgjald

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...