Isis stjórna 50% markaðarins
Isis-samtökin, sem lýst hafa sig ábyrg fyrir hroðalegum árásum á borgara í París og fleiri voðaverkum, stjórna um 50% af allri hveitiframleiðslu í Írak.
Samtökin hafa kerfisbundið verið að söðla undir sig matvælamarkaðinn í landinu og framleiðir meðal annars mikið magn af hveiti. Starfsemi samtakanna er að hluta til fjármögnuð af sölu á hveitinu og öðru korni á svörtum markaði. Stafsemin er þó aðallega fjármögnuð með sölu á olíu og fjárstuðningi erlendra ríkja.
Á síðasta ári komust samtökin yfir 1,1 milljón tonn af hveiti sem voru í geymslu á svæðum sem þau hernumdu. Auk þess að gera framleiðslu bænda á hernumdum svæðum upptæka krefst Isis hárra skatta af bændum vegna framleiðslu þeirra og í sumum tilfellum verndartolla.
Átökin í Sýrlandi hafa gengið gríðarlega á matvælaframleiðslu í landinu og að minnsta kosti helmingur allra kornakra í landinu hafa orðið eldi að bráð. Átök innanlands og loftárásir Rússa, Bandaríkjamanna, Frakka og annarra þjóða hafa valdið íkveikjum á ökrunum sem brenna upp á örskotsstundu vegna þurrs loftslags í landinu.