Íslenski lambapelsinn NORA kominn í sölu
NORA, pels sem er alfarið hannaður og framleiddur hér á landi úr íslenskum gærum, er kominn í sölu á Epal og á heimasíðu NORA, www.nora.is.
NORA-pelsinn er framleiddur úr íslenskum gærum, sem eru sútaðar í Loðskinni á Sauðárkróki. Ingibjörg Finnbogadóttir hannar pelsana og þeir eru saumaðir á verkstæði NORU í Bygggörðum á Seltjarnarnesi. Fyrsti hluti framleiðslunnar, sem er eingöngu hvítir pelsar, var framleiddur úr gærum frá Norðlenska sem styrkti framleiðsluna. Næsta skref er svo að bæta við fleiri litum og sniðum.
Hugmyndin á bakvið NORA er að endurvekja velgengni íslenska lambapelsins, sem var vinsæl flík hér á landi fyrir nokkrum áratugum. Einnig er horft til þess að auka verðmæti íslenskra gæra með því að gera eftirsóknarverða flík úr þessu góða og hlýja hráefni.
Stofnendur NORA eru Ingibjörg Finnbogadóttir, fatahönnuður og viðskiptafræðingur og Dögg Hjaltalín viðskiptafræðingur.