Íslenskir smáframleiðendur fá sitt svæði í Krónunni Granda
Í lok síðustu viku setti Krónan Grandi upp sérstakt svæði í verslun sinni sem er sérmerkt íslenskum smáframleiðendum.
Þar er vörum félagsmanna Samtaka smáframleiðenda matvæla stillt upp saman á svæðinu sem kallast Matarbúr Krónunnar – hnossgæti frá íslenskum smáframleiðendum og er samstarfsverkefni samtakanna og Krónunnar.
Stefnt er að því að sambærilegum svæðum verði komið upp í öðrum verslunum Krónunnar, verði næg eftirspurn eftir vörunum.
Sérsmíðaðar innréttingar og sérhannað kynningarefni
Á svæði íslensku smáframleiðendanna er sérstakur kælir, frystir og sérsmíðaðar innréttingar og sérhannað kynningarefni um framleiðendurna og vörurnar.
Að sögn Oddnýjar Önnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra samtakanna, er tilgangurinn að gera vörum smáframleiðenda matvæla hærra undir höfði og gera þær aðgreinanlegri og aðgengilegri fyrir viðskiptavini Krónunnar. „Við skiptum árinu upp í tveggja mánaða tímabil og munu um 20 smáframleiðendur bjóða valdar vörur á hverju tímabili,“ segir hún.
Tæplega eins árs samtök með 75 framleiðendur
Samtök smáframleiðenda matvæla voru stofnuð á Hótel Sögu 5. nóvember 2019. Innan þeirra vébanda eru 75 framleiðendur.