Íslenskt grænmeti stendur fyrir – GÆÐI BEINT FRÁ BÓNDA
Sölufélag garðyrkjumanna (SFG) fagnaði 80 ára afmæli á árinu 2020 en það var stofnað þann 13. janúar árið 1940. Félagið hefur nú sett í loftið nýtt og glæsilegt kynningarmyndband um starfsemina sem spannar allan ferilinn frá bónda á matborð neytenda.
Eins og fram kemur í myndbandinu er SFG samheldin fjölskylda grænmetisbænda sem hefur í þrjár kynslóðir vökvað grænmetið sitt með íslensku vatni.
Á rúmlega 80 árum hefur Sölufélag grænmetisbænda þróast hratt og tekið vaxtarkipp með hverri kynslóð. Félagið hefur þroskast á þessum áratugum úr grasrótarafli í bakland fyrir bændur. Eða eins og segir í myndbandinu:
„Fyrsta kynslóðin plægði akurinn með áherslu á framleiðslugetuna. Hún sýndi það og sannaði að á Íslandi má rækta afbragðsgrænmeti árið um kring. Önnur kynslóð fylgdi í plógfarið með áherslu á vöruþróun, merkingar og gæði. Hún sáði um leið fræjum að öflugu kynningarstarfi. Í dag vita allir að íslenskt grænmeti stendur fyrir gæði beint frá bónda.“
Nú sé áherslan lögð á vistvænar lausnir í ræktun, pökkun og dreifingu sem er kolefnisjöfnuð alla leið í innkaupakörfuna.