Jákvæð upplifun styrkþega
Nýverið var framkvæmd könnun meðal þeirra byggðarlaga sem þátt hafa tekið í verkefni Brothættra byggða, þar sem styrkþegar voru inntir eftir því hver upplifun þeirra væri af verkefninu í heild sinni.
Svarhlutfall var um 60%, tekið til áranna 2020–2023 úr sjö byggðarlögum og er einkennandi hversu mikil jákvæðni var í garð verkefnisins. Kom einnig fram ítrekun á mikilvægi stuðnings við íbúa hvers byggðarlags, viðurkenning á hugmyndum þeirra og eftirfylgni. Var samróma upplifun að þó ekki væri endilega um háar upphæðir að ræða í mörgum tilvika styrkja, fælist í þeim hvatning til að framfylgja verkefnunum.
Rúmur helmingur svarenda gaf 9–10 stig af tíu mögulegum við spurningunni „Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að þú myndir sækjast eftir öðrum/áframhaldandi styrk frá Brothættum byggðum?“ og yfir 80% svarenda gáfu einkunn frá bilinu 6–10. Verkefni á sviði menningar/ lista/viðburða og tækjakaupa/ vinnuaðstöðu/uppbygginga stóðu hvað hæst þó styrkirnir hafi annars þjónað víðu sviði.
Varðandi þau skref sem taka þarf til þess að sækja um styrkinn, gáfu um 70% þátttakenda í könnuninni einkunnina 6–10 og þótti ferlið fremur auðvelt. Vert er að geta þess að verkefnastjórar veita aðstoð ef þarf við hugmyndavinnu og umsóknaskrif. Kom í ljós að 90% styrkþega síðustu þriggja ára þótti aðgengi að verkefnastjóra eiga skilið háa einkunn, vel eða mjög vel hafi gengið að fá aðstoð.
Samkvæmt skýrslunni kemur fram að um 74% töldu auðvelt eða mjög auðvelt að fá hjálp verkefnisstjóra. 20% hafa ekki þurft eða ekki borið sig eftir aðstoð í umsóknarferlinu á meðan um 3% telja ferlið mjög erfitt eða erfitt.
Niðurstöður eru því þær að víðtæk sátt er með verkefnið í heild sinni þar sem upplifun um þakklæti, traust, hvatningu og samheldni ber hæst og verkefnastjórar Brothættra byggða, þau Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir afar ánægð með málalyktir.