Jákvætt að tekið sé tillit til smærri framleiðenda
Guðmundur Svavarsson, formaður Deildar kjúklingabænda, fagnar því að stjórnvöld bregðist nú við alvarlegu ástandi í landbúnaði, vegna gríðarlegrar hækkunar aðfanga til landbúnaðarframleiðslu.
„Þetta er skref í rétta átt til að viðhalda framleiðslugetu bænda og fæðuöryggi þjóðarinnar. Einnig stuðlar þetta að minni hækkunarþörf út á markað til neytenda.
Á síðasta ári voru framleidd 9.244 tonn af alifuglakjöti í landinu. Það þarf 2 tonn af fóðri til að framleiða 1 tonn af kjöti og því má gefa sér að það hafi þurft um 18.500 tonn fóðurs til framleiðslunnar.
Skýrsla spretthópsins segir fóðurverð hafa hækkað um 30% undanfarna mánuði. Sú hækkun hefur í för með sér u.þ.b. 630 milljón kr. hækkun á fóðurreikning alifuglaræktarinnar á ársgrundvelli.
Stuðningur til greinarinnar upp á 160 milljónir kr. er því u.þ.b. 25% þess kostnaðarauka sem orðið hefur í greininni vegna fóðurverðshækkunarinnar einnar og sér. Þá eru ótaldar aðrar hækkanir aðfanga, t.d. flutningar, olía, umbúðir, laun og fjármagnskostnaður.
Þótt það þjóni kannski ekki hagsmunum þeirra sem stærri eru í greininni og að almennt ætti jafnræði að ríkja finnst mér jákvætt að sjá að við úthlutun á að taka sérstakt tillit til minni framleiðenda.“