Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fréttir 6. desember 2016
Jólaskógarnir opnir almenningi á aðventunni
Höfundur: smh
Eins og síðustu ár verða jólaskógar skógræktarfélaganna opnir á aðventunni. Ragnhildur Freysteinsdóttir hjá Skógræktarfélagi Íslands segir fyrirkomulag jólatrjáasölu hjá skógræktarfélögunum vera svipað frá ári til árs, en það sveiflist þó aðeins hvort sala sé hjá tilteknum félögum eður ei.
Ég er þessa dagana að hnippa í félögin og biðja um upplýsingar – hvort þau verði með sölu og þá upplýsingar um söluna, ef svo er. Þau félög sem ég hef fengið upplýsingar frá eru öll inni á jólatrjáavefnum okkar (www.skog.is/jolatre) – þar set ég upplýsingar inn um leið og þær berast,“ segir Ragnhildur.
Að fella sitt eigið tré
Að sögn Ragnhildar eru flest félögin með þannig sölu að fólk getur komið, valið sér tré í skóginum og fellt. „Sum félög, eins og Skógræktarfélag Akraness, Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, Skógræktarfélag Árnesinga, Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Eyfirðinga, eru einnig með felld tré eða annan varning til sölu samhliða. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er eina undantekningin, þar eru bara seld felld tré.“
Stafafuran langalgengust
Á jólatrjáavef Skógræktarfélags Íslands eru upplýsingar um algengustu jólatrjáategundirnar. Stafafuran er langalgengust – en meira en helmingur selst af henni. Á eftir henni fylgja svo rauðgreni, með um 20 prósent sölu, blágreni með um 15 prósent og sitkagreni um 10 prósent. Restin skiptist á margar tegundir – mest af fjallaþin og svo stöku tré af síberíuþin, lindifuru, bergfuru og einhverjar fleiri tegundir seljast líka.
Ragnhildur segir fjallaþin vera vonarstjörnuna, að því leyti að hann er fyllilega samkeppnishæfur við innflutta nordmannsþininn útlitslega séð. „En það er enn mikið verk eftir til að finna betri kvæmi af honum fyrir ræktun til jólatrjáa hérlendis. Það er það stutt síðan farið var að gróðursetja hann í einhverju magni að það er töluvert í að hann fari að vega eitthvað að ráði sem jólatré, sérstaklega þar sem hann þarf lengri tíma til þess að verða jólatré en til dæmis stafafuran. Það eru engir sérstakir skógar með fjallaþin þannig séð – það er smá af honum á víð og dreif í hinum og þessum skógum félaganna.“
Jólamarkaður við Elliðavatn
Mikil jólastemning er jafnan á aðventunni á jólamarkaði Skógræktarfélags Reykjavíkur við Elliðavatn. Hann var opnaður laugardaginn 26. nóvember og verður opinn allar helgar fram að jólum frá 11–16.30.
Á hlaðinu eru til sölu nýhöggvin íslensk jólatré og þar að auki mikið úrval af tröpputrjánum vinsælu, eldiviði, viðarkyndlum auk annarra afurða úr Heiðmörk. Í boði er stafafura, rauðgreni, blágreni, sitkagreni og fjallaþinur.
Það er orðin sterk hefð í mörgum fjölskyldum að koma í Jólaskóg Skógræktarfélags Reykjavíkur á aðventunni og höggva sitt eigið jólatré. Í ár verður Jólaskógurinn opinn helgarnar 3–4. desember 10.–11. desember og 17.–18 desember, kl. 11–16.
Alla daga verður líf og fjör, jólasveinarnir verða á staðnum og það verður logandi varðeldur. Hægt verður að kaupa heitt kakó og smákökur og jólalögin sungin.
Íslensk jólatré eru vistvæn. Þau eru ræktuð án eiturefna og eru ekki flutt á milli landa. Í staðinn fyrir hvert tré sem höggvið er gróðursetur Skógræktarfélag Reykjavíkur að minnsta kosti þrjátíu tré.
Góð stemning er jafnan á jólamarkaðinum við Elliðavatn.