Kalifornía brennur
Undanfarna mánuði hafa skógareldar verið að magnast í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
Eldarnir, sem brenna á mörgum stöðum í ríkinu, eru illviðráðanlegir vegna þurrka og þrátt fyrir baráttu skógaryfirvalda og slökkviliðs hafa eldarnir verið að breiðast út. Fyrstu eldarnir sem um ræðir hafa logað frá því um miðjan janúar á þessu ári og alls hafa þeir verið um 5000 og logað á um 60 þúsund hektara svæði.
Auk gróðurskemmda og dauða fjölda dýra hafa að minnsta kosti 120 byggingar orðið eldinum að bráð og fjöldi fólks þurft að yfirgefa heimili sín. Orsök eldanna er rakin til loftslagsbreytinga og hitabylgju í kjölfar þeirra sem leitt hafa til óvenju mikilla þurrka í ríkinu. Skógareldum hefur fjölgað í Kaliforníu undanfarin ár en að sögn skógaryfirvalda í ríkinu eru eldarnir óvenju margir og stórir í ár.