Kalla eftir þátttöku á Terra Madre Nordic
Slow Food hreyfingin á Norðurlöndunum mun halda matarhátíðina Terra Madre Nordic 1.–3. september nk. í Stokkhólmi, í samvinnu við Eldrimner, sem eru þarlend samtök smáframleiðenda.
Samtök smáframleiðenda matvæla kalla eftir þátttöku félagsmanna á hátíðinni.
Á Terra Madre Nordic felst dagskráin í málstofum, vinnusmiðjum, smökkunum og uppákomum á svæðinu.
Samhliða þeirri matarhátíð verður keppt í matarhandverki á viðburðinum Nordic Artisan Food Awards, sem er óformleg Norðurlandakeppni.
Terra Madre á Norðurlöndunum ber svipmót alþjóðlegu Terra Madre hátíðarinnar sem haldin er í Tórínó á Ítalíu annað hvert haust. Síðast voru slíkar hátíðir haldnar árið 2018, en féllu niður árið 2020 vegna Covid- 19-faraldursins.
Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum smáframleiðenda matvæla stendur Íslendingum til boða að taka þátt í nokkrum viðburðum hátíðarinnar en áhugasömum er bent á að hafa samband við Slow Food á Íslandi fyrir nánari upplýsingar.