Kjötið sagt vera frá Spáni en sníkjudýrið hefur aldrei fundist í íslenskum svínum
Í það minnsta 14 einstaklingar í borgunum Antwerpen og Limburg í Belgíu greindust með svínaorm eða tríkínu í síðasta mánuði. Veiktist fólkið eftir neyslu á kjöti af villisvínum á þrem veitingastöðum.
Kjötið mun hafa komið frá útflytjanda í Girona á Spáni, samkvæmt upplýsingum frá International Society for Infectious Diseases.
Center for Burden and Risk Assessment (CBRA) greindi frá því að tólf einstaklingar væru smitaðir af tríkínu eftir að hafa neytt svínakjöts. Sendu heilbrigðisyfirvöld í Belgíu út varnaðarorð í útvarpi og öðrum fjölmiðlum til almennings þar sem líkur séu á meiri útbreiðslu þessa sníkjudýrs sem getur leitt sjúklinga til dauða. Síðan er staðfest að tveir til viðbótar hafi veikst. Talið er að annaðhvort hafi kjötið ekki verið skoðað samkvæmt reglugerð ESB um leit á tríkínu í svína- og hrossakjöti, eða að eftirlitsmenn hafi hreinlega ekki orðið varir við sýkinguna.
Fyrsta smitið í heila öld í Belgíu
Fæðuöryggisstofnun Belgíu (FASFC) hefur innkallað allt villisvínakjöt sem veitingastaðir í tveim héruðum í Belgíu hafa fengið frá Spáni.
Um 100 ár eru síðan Belgar töldu sig hafa útrýmt þessu sníkjudýri hjá sér og hefur þess ekki orðið vart þar í landi síðan, eða þar til nú.
Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, segir að þetta sníkjudýr hafi aldrei fundist í íslenskum svínum.
Karl Skírnisson, líffræðingur á Keldum og sérfræðingur á þessu sviði, segir að tríkínur séu sníkjuþráðormar sem lifi í mönnum og dýrum víðast hvar í heiminum. Fram til ársins 1972 hafi menn einungis þekkt eina tegund, Trichinella spiralis.
„Þegar kom fram á sjöunda áratug síðustu aldar fór vísindamenn að gruna að tríkínur væru af fleiri en einni tegund. Skömmu síðar, eða árið 1972, lýstu rússneskir sníkjudýrafræðingar svo sérstakri norðurhjarategund, T. nativa. Eftir því sem rannsóknir hafa aukist og greiningartækni fleygt fram hefur fleiri tegundum verið lýst. Síðan hefur komið í ljós að tríkínutegundirnar eru að minnsta kosti ellefu,“ segir Karl.
Ísland eitt fárra landa þar sem tríkínur eru ekki landlægar
Á undanförnum árum og áratugum hefur T. nativa með vissu borist þrisvar sinnum til landsins, í öll skiptin með hvítabjörnum. Lirfur þessarar tegundar þola langvarandi frost öfugt við lirfur hinna tegundanna.
Fyrsti smitaði björninn var felldur árið 1963 í Hornvík. Gera má því skóna að svipað hafi þráfaldlega gerst í gegnum aldirnar og fjöldi hvítabjarna smitaðir af tríkínum hafi borið beinin hér á landi án þess þó að sníkjudýrið hafi orðið landlægt. Síðan hefur sníkjudýrið fundist í fleiri hvítabjörnum sem hingað hafa komið, en aldrei í svínum eða öðrum íslenskum spendýrum.
Að sögn Karls gætu bæði T. nativa og T. spiralis fræðilega náð fótfestu og lokið lífsferli sínum á Íslandi. Líkurnar á því að það gerist eru þó taldar vera mjög litlar við núverandi aðstæður. Talið er að um 10 milljónir manna um allan heim séu smitaðar af tríkínum. Síðustu áratugina hefur smit í fólki á Vesturlöndum og í Vesturheimi verið á stöðugu undanhaldi, einkum vegna skipulegrar leitar að lirfum í svína- og hrossakjöti sem oft hefur reynst vera uppspretta faraldra í mönnum. Ísland er eitt fárra landa í heiminum þar sem tríkínur eru ekki landlægar.
Lífseigt kvikindi
„Gera má því skóna að í gegnum aldirnar hafi fjöldi hvítabjarna smitaðir af tríkínum borið beinin hér á landi án þess þó að sníkjudýrið hafi orðið landlægt.“
Karl lýsti skilmerkilega líffræði tríkína og ástæðum fyrir fjarveru þeirra frá Íslandi í grein í Tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags.
Þar fjallaði hann m.a. um hvort, og þá við hvaða aðstæður T. nativa gæti orðið landlæg í lífríki Íslands.
Umrætt sníkjudýr var uppgötvað árið 1835. Við krufningu berklasjúklings í London veitti ungur læknanemi, James Paget, því athygli að í þind hins látna var aragrúi örsmárra korna sem minntu einna helst á fínan sand. Forvitni rak hann til að skoða þessi korn í smásjá og sá hann þá fyrstur manna að inni í hverri öðru leyndist upprúlluð lirfa. Í framhaldinu var bita úr þindinni komið til Richard Owen, safnvarðar við Royal College of Surgeons í London. Lýsti hann þessum áður óþekkta ormi ásamt þolhjúpnum sem umlukti sníkjudýrið. Ormurinn hlaut nafnið Trichinella spiralis. Vísar heitið til lögunar lirfanna og þess hvernig þær lifa langar, mjóar og upprúllaðar innan í þolhjúpum, orðið trichnia er upprunnið úr grísku og merkir hárlaga.
Tríkínur hafa fundist í yfir 100 tegundum spendýra
Tríkínutegundir sem hafa lirfur í þolhjúpum hafa verið staðfestar í meira en 100 tegundum spendýra, auk mannsins. Mjög er þó mismunandi eftir landsvæðum hvaða spendýr eru oftast smituð.
Landspendýrin sem oftast hýsa tríkínur á heimskautasvæðum norðurhvels eru hvítabjörn, heimskautarefur, sleðahundar og úlfur (en sjávarspendýrin sem fundist hafa smituð eru rostungur, kambselur, hringanóri og mjaldur. Rostungurinn er eina sjávarspendýrið sem iðulega er smitað af tríkínum (dýrin smitast við að narta í hræ af smituðum kynsystkinum í látrum) en smit í selunum og tannhvalnum er sárasjaldgæft og sýkingarnar taldar vera algjör undantekning. Á tempruðum landsvæðum eru tríkínur algengastar í heimilissvínum, villisvínum, hundum, björnum, refum og hrossum en í hitabeltinu eru það vörtusvín, hýenur og sjakalar.
Refurinn líklegasti hýsillinn
Einangrun landsins í miðju Norður-Atlantshafinu og fátíður innflutningur dýra til landsins í gegnum aldirnar skipta þar væntanlega mestu máli um að tríkína hefur ekki náð hér bólfestu. Refur er það spendýr sem líklegast er þó til að geta viðhaldið lífsferli tríkína eftir át á tríkínusmituðum ísbjarnahræjum, auk minka, hagamúsa og brúnrotta.
„Því ber tafarlaust að ganga tryggilega frá hvítabjarnarleifum sem kunna að finnast á Íslandi,“ segir Karl.
Tríkína getur skemmt hjarta og heila
Samkvæmt útlistun Karls er framgangur sjúkdóms af völdum tríkína í mönnum vel þekktur. Fyrstu einkennin tengjast veru ormanna í smáþörmum en þegar lirfurnar fara að berast út um líkamann og mynda þolhjúpa breytast einkennin. Í fyrri fasanum ber á kviðverkjum, niðurgangi og uppköstum. Auk þess verður einnig vart við svima, hita og kláða og geta þessi einkenni varað allt frá fimm upp í 45 daga eða svo lengi sem kvendýrin eru á lífi. Þegar lirfurnar byrja að dreifast um líkamann fer fólk að fá höfuðverk, kuldaköst, hósta, lið- og vöðvaverki, bólgur og blæðingar í húð, augnabólgur og kláða. Þessi einkenni, ásamt slappleika, geta svo verið viðvarandi mánuðum saman áður en bataferlið hefst og sársaukinn fer að dvína. Dauðsföllin verða einkum þegar mikið af lirfum nær að trufla starfsemi hjartans, þegar virkni vöðvanna sem sjá um öndunarhreyfingar truflast eða þegar lirfur hafa náð að safnast fyrir í miklum mæli í heila að taugakerfið hættir að starfa eðlilega.
Vægar sýkingar með tiltölulega fáum verpandi kvendýrum minna á flensu eða umgangspestir og geta slíkar sýkingar gengið yfir án þess að viðkomandi átti sig á orsökinni.
Sömu sjúkdómseinkenna gætir í dýrum en þau birtast þó á annan hátt. Í svínum greina eigendur til dæmis aukin sársaukaviðbrögð, hraðari öndun, kyngingarerfiðleika og stirðbusalegri hreyfingar en svipað og í mannfólkinu hverfa þessi einkenni að mestu þegar þolhjúparnir eru fullmyndaðir.
Frysting drepur sum afbrigði ormsins
Frysting á kjöti í að minnsta kosti 20 daga drepur sum afbrigði Trichinella, en ekki endilega öll og sömuleiðis suða í 70° heitu vatni á Celsíus.
Snýkjudýrið getur líka lifað af hefðbundið vinnsluferli á kjöti t.d. í kryddpylsum eins og salami og þannig borist frá einu landi til annars. Samkvæmt upplýsingum af vef International Commission on Trichinellosis, sem eru samtök vísindamanna um þetta málefni, er slíkt ekki óvanalegt. Nefnd eru fjölmörg dæmi um smit á undanförnum árum víða um heim, m.a. á Spáni, í Þýskalandi, Svíþjóð, Litháen og í Rússlandi. Á vefslóðinni [http://www.promedmail.org/direct.php?id=20080722.2214] er m.a. sagt frá fjölskyldu í Argentínu sem smitaðist af sníkjudýrinu árið 2008 eftir neyslu á salami og fleiri slík tilfelli eru líka nefnd.
Öruggast er því talið að forðast einfaldlega matreiðslu á kjöti sem ekkert er vitað um uppruna á og mögulega getur verið smitað af Trichinella./HKr.