KS innleysti Búsældarbændur
Kaupfélag Skagfirðinga leysti til sín eignarhlut þeirra þrettán bænda sem féllust ekki á sölu á hlut sínum í Kjarnafæði Norðlenska í gegnum eignarhaldsfélagið Búsæld.
Meginhluti þeirra bænda sem áttu hlut tóku ákvörðun um að selja eignarhlut sinn í Búsæld til KS við kaup þess á Kjarnafæði Norðlenska en þrettán bændur héldu enn eftir sínum hlut. Meðal þeirra var Þórarinn Ingi Pétursson alþingismaður. Hins vegar tilkynnti KS að félagið myndi krefjast innlausnar á þeim eignarhlutum á grundvelli hlutafjárlaga. Í þeim segir að ef einn hluthafi á meira en 90 prósent í félagi getur hann ákveðið að aðrir hluthafar skuli sæta innlausn á hlut sínum. Samkvæmt upplýsingum fengu bændurnir þrettán sama verð fyrir hlut sinn og aðrir fyrrum hluthafar í Búsæld.