Kúasæðingar hækka í verði
Stjórn Búnaðarsamtaka Vesturlands ákvað á fundi í lok júní að hækka gjaldskrá sína vegna kúasæðinga frá 1. júlí um 5%, þó ekki kvígusæðingar.
„Ástæðan er fyrst og fremst hækkun á kostnaðarliðum eins og launahækkun og hækkun á sæði. Með þessu erum við að reyna að halda rekstrinum á sæðingum í jafnvægi,“ segir Guðmundur Davíðsson, formaður stjórnar samtakanna, spurður út í skýringu á hækkuninni.
Tveir fastir starfsmenn vinna við sæðingar, auk afleysingafólks á Vesturlandi, og þrír verktakar sjá um sæðingar á Vestfjörðum. Eftir hækkunina 1. júlí kostar kúasæðing 4.470 kr. og kvígusæðing 2.322 kr. Heimsóknargjald er 3.270 kr.