Kveður Bændasamtökin eftir 19 ára starf
Tjörvi Bjarnason, sviðsstjóri útgáfu- og kynningarsviðs Bændasamtakanna, hefur sagt upp störfum hjá samtökunum eftir 19 ár í Bændahöllinni. Hann hefur stýrt rekstri Bændablaðsins um árabil og unnið í almannatengslum fyrir bændur ásamt fleiru.
„Það var kominn tími að breyta til eftir langan starfstíma. Bændasamtökin eru að ganga í gegnum löngu tímabæra sameiningu við búgreinafélögin og það eru mörg mikilvæg mál í hagsmunagæslu fyrir bændur fram undan. Forsvarsmenn og allt starfsfólk samtakanna hafa í mörg horn að líta á næstu misserum en ég hef ákveðið að yfirgefa skútuna. Ég óska þeim velfarnaðar í sínum störfum. Sjálfur er ég að hugsa um næstu skref á vinnumarkaðnum og ekki er ólíklegt að þau muni tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu.“
Dýrmætt að hafa kynnst fjölmörgum eftirminnilegum einstaklingum
Tjörvi segir að það standi upp úr tímanum í Bændahöllinni að vinna með góðu fólki.
„Það er sérlega dýrmætt að hafa kynnst fjölmörgum eftirminnilegum einstaklingum í starfinu, bæði samverkamönnum, ráðunautum og bændum um allt land. Ég hef lært mikið af mér reyndara fólki og stend í þakkarskuld við marga trausta vinnufélaga. Þá hefur líka gengið frábærlega að reka Bændablaðið og hefur áhöfnin á því skilað góðu verki síðustu ár. Auglýsendur og þeir sem með einum eða öðrum hætti koma að útgáfunni eiga hrós skilið fyrir tryggðina í gegnum árin. Vinna á norrænum vettvangi hefur líka verið gjöful og ég hef átt náið samstarf við starfsfólk annarra hagsmunasamtaka, fyrirtækja og stofnana sem tengjast landbúnaðinum. Það er dýrmætt fyrir bændur að fulltrúar þeirra eigi í góðum samskiptum við þá sem hafa áhrif á þeirra störf.“
Ímynd bænda fæst ekki keypt
Að mati Tjörva er áríðandi að gæta hagsmuna bænda og þar megi aldrei slaka á. Bændurnir sjálfir leiki hins vegar lykilhlutverkið.
„Bændur verða að slá skjaldborg um sín samtök og standa saman. Atvinnugreinin nýtur mikils velvilja hjá almenningi en hann þarf að rækta. Það þarf að sýna gott fordæmi og stunda búskap með ábyrgum hætti. Ímynd bænda verður ekki byggð upp á samfélagsmiðlum eða með innantómum auglýsingafrösum. Forystumenn bænda þurfa að hefja sig upp fyrir pólitíska flokkadrætti og muna að það er fólkið í landinu sem eru okkar bestu bandamenn. Fram undan eru miklar breytingar í þjóðfélaginu og stuðningskerfi bænda þarf að stokka upp fyrr en síðar. Þar er kyrrstaðan ekki í boði.
Ég held að þetta verði stærsta viðfangsefni bændahreyfingarinnar á næstu árum ásamt því að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í loftslagsmálunum og stuðla að meiri gæðum og framleiðni í atvinnugreininni.“
Starfsfólk Bændablaðsins þakkar Tjörva fyrir afar góð kynni og samstarf á liðnum árum og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.