Lækka gjöld fyrir sorphirðu
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur samþykkt samhljóða að lækka sorphirðugjöld.
Ástæðan er tafir á dreifingum sorpíláta. Samþykkt hefur verið að rukka 75.000 króna gjald á hvert heimili og 35.000 krónur á frístundahús. Íbúðir sveitarfélagsins eru 313 talsins en frístundahúsin um fjörutíu.
„Málið snýst um innleiðingu á nýju kerfi hjá okkur þar sem átti að rukka ákveðið gjald fyrir hvert ílát en það hefur ekki gengið nægilega hratt og talningu og dreifingu á ílátum var ekki lokið fyrr en í þessum mánuði. Því munu heimilin greiða minna heldur en þau hefðu greitt samkvæmt gjaldskrá sem miðaði við gjald per ílát. Samkvæmt þeirri gjaldskrá hefði heimili þurft að greiða 106.000 krónur á ári miðað við að vera með fjórar tunnur. Það þótti því eðlilegt að lækka gjaldið þar sem dreifing íláta tafðist,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.