Lagt til að sameina lög um dýraheilbrigði og dýrainnflutning
Starfshópur um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna hefur skilað skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Skýrslan er unnin í framhaldi umræðu undanfarinna ára um nauðsyn þess að endurskoða helstu lög sem varða dýraheilbrigði og dýrasjúkdóma.
Í skýrslunni er lagt til að í nýjum lögum um heilbrigði dýra verði tilgangi núverandi laga um dýrasjúkdóma og laga um innflutning á dýrum slegið saman. Þannig að til yrðu heildstæð og samræmd lög um dýraheilbrigði sem hafa að markmiði að vernda og bæta heilbrigði allra dýra á Íslandi. Á sama tíma að verjast komu nýrra smitefna til landsins og hindra að þau berist í dýr og breiðist út.
Áfram er gert ráð fyrir að það verði sérstök lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.